Viðskipti innlent

Hvalárvirkjun aftur á dagskrá og tvö ár gætu verið í framkvæmdir

Kristján Már Unnarsson skrifar
Séð yfir ósa Hvalár. Ófeigsfjörður í baksýn.
Séð yfir ósa Hvalár. Ófeigsfjörður í baksýn. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Framkvæmdir við Hvalárvirkjun á Ströndum gætu hafist eftir tvö ár, að mati forstjóra HS Orku. Það er þó háð því að tilskilin leyfi verði fengin fyrir nauðsynlegum háspennulínum.

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en af þremur nýjum vatnsaflsvirkjunum, sem fengu grænt ljós frá Alþingi í nýsamþykktri rammaáætlun, eru tvær á Vestfjörðum, Austurgilsvirkjun í Skaldfannardal í Ísafjarðardjúpi og Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum.

Vesturverk stendur að Hvalárvirkjun en fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu HS Orku.

Vegurinn um Ingólfsfjörð var lagfærður sumarið 2019 til að auðvelda aðdrætti vegna Hvalárvirkjunar.KMU

„Það er verkefni sem er búið að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum og búið að samþykkja í rammaáætlun og í raun og veru sú vatnsaflsvirkjun í rammaáætlun sem gefur mestu miðlun,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Deilur um Hvalárvirkjun voru áberandi sumarið 2019 þegar Vesturverk hóf undirbúningsframkvæmdir með lagfæringu vegslóðans um Ingólfsfjörð.

„Við erum ekkert búnir að vera með neinar framkvæmdir síðustu þrjú ár. Við höfum bara aðallega verið að sinna rannsóknum til að vera undirbúin.“

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir forgang fyrirtækisins núna að afla meiri orku úr jarðgufu á Suðurnesjum.Egill Aðalsteinsson

„Það eru fleiri sem þurfa að koma að en bara við. Það þarf náttúrlega að leggja háspennulínu og strengi og annað þess háttar. Og þetta er allt háð leyfum. Menn eru mislangt komnir í leyfisveitingaferlinu. Við erum komin lengst.“

Tómas bendir á að staðan í orkumálum þjóðarinnar sé núna önnur.

„Við sáum klárlega í vetur að það er orkuskortur í landinu. Það er mikil eftirspurn eftir raforku í orkuskipti og slík verkefni. Til lengri tíma tel ég nokkuð líklegt að við munum einbeita okkur að Hvalárvirkjun í framtíðinni.“

Fossinn Drynjandi í Hvalá.Egill Aðalsteinsson

Ekkert gerist þó fyrr en Landsnet hefur fengið tilskilin leyfi fyrir háspennulínum svo unnt sé að tengja Hvalárvirkjun inn á raforkukerfið. En hvenær telur forstjóri HS Orku að framkvæmdir gætu hafist?

„Ég mundi halda – það þarf náttúrlega - aðrir aðilar þurfa að fá leyfi. Það þarf að liggja fyrir.

Þegar það liggur fyrir, það eru kannski tvö ár í það, þá væri hægt að hefja framkvæmdir, ef að eftirspurn er fyrir orkunni þá,“ svarar forstjóri HS Orku.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Kröfu landeigenda á Seljanesi hafnað

Samgönguráðuneytið hefur hafnað kröfu hluta landeigenda Seljaness í Árneshreppi um að ákvörðun Vegagerðarinnar um að fela Vesturverki veghald Ófeigsfjarðarvegar yrði felld úr gildi.

Fern samtök kæra virkjun í Árneshreppi

Ákvörðun sveitarstjórnar Árneshrepps um að veita leyfa til framkvæmda við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði hefur verið kærð af fernum samtökum í náttúruvernd. Fylgja í kjölfar kæru landeigenda.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.