Körfubolti

Kyrie Irving verður áfram hjá Brooklyn Nets en Wall fer til Clippers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving og Kevin Durant spila áfram saman hjá Brooklyn Nets á næsta NBA-tímabili.
Kyrie Irving og Kevin Durant spila áfram saman hjá Brooklyn Nets á næsta NBA-tímabili. Getty/Maddie Malhotr

Kyrie Irving var ekki tilbúinn að skilja tæpa fjóra milljarða íslenskra króna eftir á borðinu og ætlar að nýta sinn rétt og taka lokaárið í samningi sínum við Brooklyn Nets. Bandarískir miðlar fengu það staðfest í nótt.

Eftir miklar vangaveltur um framtíð Irving í bandarískum fjölmiðlum að undanförnu er nú orðið ljóst að hann fer ekki neitt. Annar launahár bakvörður ætlar hins vegar til Los Angeles borgar.

Kyrie fékk ekki langtímasamning hjá Brooklyn og hafði sett fram lista með liðum sem hann hafði áhugi á að fara í skiptum til. Ekkert liðanna sýndi honum áhuga nema Lakers.

Nets hafði aftur á móti engan áhuga á þeim leikmönnum sem Lakers gat boðið í skiptum fyrir Kyrie og hefði hann þurft að skilja eftir þrjátíu milljónir dollara á borðinu vildi hann spila aftur við hlið LeBron James.

Kyrie ætlar hins vegar að taka þær 36,5 milljónir dollara sem var í boði frá Nets og verður því við hlið Kevin Durant á tímabilinu 2022-23. Hann verður síðan laus allra mála næsta sumar.

Irving var með 27,4 stig og 5,8 stoðsendingar í leik á síðustu leiktíð en spilaði aðeins 29 leiki. Hann missti af mörgum leikjum vegna bólusetningaskyldu í New York.

Kyrie hafði tapað stórum upphæðum á því að neita láta bólusetja sig á nýloknu tímabili en um leið hefur mikil fjarvera hans undanfarin ár séð til þess að Nets var ekki tilbúið að bjóða honum langtímasamning í sumar.

John Wall átti að fá 47,4 milljónir dollara frá Houston Rockets fyrir lokaárið af samningi sínum en hann spilaði ekkert með liðinu á síðustu leiktíð.

Houston keypti hann út úr samningnum með því að spara sér að borga honum 6,5 milljónir dollara. Wall verður því frjáls allra mála en fær væntanlega þessar 6,5 milljónir frá því liði sem hann semur við.

Nú er orðið ljóst að þetta lið verður lið Los Angeles Clippers. Wall spilar því við hlið þeirra Kawhi Leonard og Paul George næsta vetur.Leonard missti af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla.

Wall er með 19,1 stig og 9,1 stoðsendingu að meðaltali á ferlinum en hann hefur lítið spilað undanfarin ár vegna bæði meiðsla og annarra ástæðna.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×