Erlent

Al­mennt ekki hugað að kynja­sjónar­miðum í Co­vid-við­brögðum ríkja heims

Atli Ísleifsson skrifar
Í skýrslunni segir að ríki sem eigi sterka feminíska hreyfingu hafi verið talsvert líklegri til að taka tillit til kynjasjónamiða í áætlunum sínum en þau ríki þar sem engin eða veik feminísk hreyfing sé við lýði.
Í skýrslunni segir að ríki sem eigi sterka feminíska hreyfingu hafi verið talsvert líklegri til að taka tillit til kynjasjónamiða í áætlunum sínum en þau ríki þar sem engin eða veik feminísk hreyfing sé við lýði. EPA

Aðeins þrettán af 226 ríkjum eða ríkissvæðum heims gerðu aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi að ríkjandi stefnu í aðgerðaráætlunum sínum vegna Covid-19 faraldursins.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu UN Women og Þróunarsamvinnustofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) um viðbragðsáætlanir ríkja heimsins við COVID-19 faraldrinum.

Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um viðbrögð íslenskra stjórnvalda vegna kynbundins ofbeldis gegn konum og börnum í skýrslunni. Unnið var með gögn frá 226 ríkjum eða ríkissvæðum heims og var niðurstaðan sú að almennt hafi ekki hugað að kynjasjónarmiðum eða -hlutverkum í viðbragðsáætlunum ríkja.

Áhrif sterkra feminískra hreyfinga

Í niðurstöðukafla segir að 0,0002 prósent af því fjármagni sem hafi farið í viðbragðsáætlanir vegna Covid-19 hafi verið í að uppræta kynbundið ofbeldi. Þá segir að ríki sem eigi sterka feminíska hreyfingu hafi verið talsvert líklegri til að taka tillit til kynjasjónamiða í áætlunum sínum en þau ríki þar sem engin eða veik feminísk hreyfing sé við lýði.

Ennfremur kemur fram að tólf prósent af efnahagsáætlunum ríkja hafi stutt beint við efnahagslegt öryggi kvenna og 82 prósent af aðgerðarteymum þessara 226 ríkja hafi verið skipuð karlmönnum að mestu. Þá segir að aðeins sjö prósent aðgerðateyma hafi verið með jafnt kynjahlutfall og ellefu prósent hafi verið skipuð konum að mestu.

Fjallað um úrræði íslenskra stjórnvalda 

Í skýrslunni er einnig farið yfir úrræði sem þóttu vel til takast, líkt og úrræði íslenskra stjórnvalda til að sporna geng kynbundnu ofbeldi og auka þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á tímum faraldursins. 

„Sérstaklega er fjallað um aðgerðarteymi sem skipað var af stjórnvöldum í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi.

Meðal þess sem teymið lagði til var að koma á fót upplýsingatorgi, opna kvennaathvarf á Akureyri, auka stuðning við börn í viðkvæmri stöðu og auka fjárveitingar til frjálsra félagasamtaka og sveitarfélaga til að halda úti þjónustu.

Þannig fékk Kvennaathvarfið 100 milljónir til að bæta húsakost sinn og aðgengi; Stígamót fékk 20 milljónir til að bregðast við auknu álagi og draga úr biðtíma og Reykjavíkurborg fékk styrk til að fjármagna tímabundið húsnæði fyrir heimilislausar konur,“ segir í tilkynningu frá UN Women á Íslandi um skýrslunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.