Golf

Segist ekki styðja mann­réttinda­brot og vonast til að láta gott af sér leiða

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Phil Mickelson, einn sigursælasti kylfingur síðari ára.
Phil Mickelson, einn sigursælasti kylfingur síðari ára. Chris Trotman/Getty Images

Kylfingurinn Phil Mickelson mun taka þátt á fyrsta móti LIV-mótaraðarinnar í golfi en um er að ræða ofurdeild sem er fjármögnuð af ríkisstjórn Sádi-Arabíu. Þá átti Graeme McDowell erfitt með að svara spurningum um málefni líðandi stundar í S-Arabíu.

Kylfingurinn Phil Mickelson mun taka þátt á fyrsta móti LIV-mótaraðarinnar í golfi. Eins og Vísir hefur greint frá áður er hálfgerða ofurdeild að ræða þar sem leikmenn fá borgað mun betur en áður. 

Mickelson fór í sjálfskipað fjölmiðlabann fyrr á þessu ári eftir að láta umdeild ummæli falla um mennina sem fjármagna mótaröðina. Eftir að hafa komið að stofnun mótaraðarinnar þá sagði hinn 51 árs gamli kylfingur að þetta væru „ógnvænlegir skrattakollar til að vera í slagtogi við,“ og átti þar við ríkisstjórn Sádi-Arabíu.

„Við vitum að þeir myrtu Khashoggi og standa sig skelfilega þegar kemur að mannréttindum. Fólk þarna er myrt fyrir að vera samkynhneigt.“

Sjá einnig: Sádar ákærðir í Tyrklandi vegna morðsins á Khashoggi

Eftir að hafa látið ekkert í sér heyra í fleiri mánuði birti Mickelson yfirlýsingu á þriðjudag, 7. júní, þess efnis að hann yrði meðal kylfinga á Centurion-vellinum í Lundúnum í Englandi um næsti helgi þar sem fyrsta mót LIV-mótaraðarinnar fer fram.

„Ég styð ekki mannréttindabrot, ég veit ekki hvernig get verið skýrari hvað það varðar. Ég skil spurninguna þína en aftur, ég elska golf. Ég hef séð það góða sem golf hefur upp á að bjóða og ég sé tækifæri fyrir LIV til að láta gott af sér leiða. Ég er spenntur að vera hluti af því,“ sagði Mickelson er hann ræddi við fjölmiðla.

Hann tók fram að hann hafi notið þess að spila á PGA-mótaröðinni og hann eigi margar góðar minningar þaðan. Mickelson vildi þó lítið ræða hvort hann væri kominn í bann frá mótaröðinni en forráðamenn PGA hafa sagt að þeir kylfingar sem spili mót á vegum LIV verði sparkað úr mótaröðinni.

„Ég skil að fólk hefur sterkar skoðanir og geti verið ósammála ákvörðun minni. Á þessum tímapunkti er þetta hins vegar tækifæri sem gefur mér möguleika á að skapa sem mest jafnvægi í lífi mínu þegar fram líða stundir og ég held að til lengri tíma muni þetta gera leiknum gott,“ sagði Mickelson að lokum.

Það voru fleiri kylfingar spurðir óþægilegra spurninga fyrir mót helgarinnar. Graeme McDowell var einn þeirra en hann gat í raun ekki svarað spurningu sem sneri að mannréttindabrotum í S-Arabíu og að kylfingar LIV-mótaraðarinnar væru nú í raun fulltrúar ríkisstjórnar landsins þar sem hún sér um að fjármagna mótaröðina.

Sjá einnig: Metfjöldi tekinn af lífi í Sádi-Arabíu

Sjá einnig: Grípa til refsiaðgerða en ekki gegn krónprinsinum sjálfum

„Ég vildi að ég hefði getuna (e. ability) til að eiga þær samræður við þig. Ef við sem kylfingar myndum reyna að leiðrétta allt sem er að í þeim löndum sem við keppum í þá myndum við ekki spila mikið golf. Það er rosalega erfitt að svara þessari spurningu. Við erum hér til að einbeita okkur að því að spila golf og hvað það gerir á heimsvísu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×