Handbolti

Sunna Guð­rún frá Akureyri til Sviss

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sunna Guðrún (til vinstri) er á leið til Sviss á nýjan leik.
Sunna Guðrún (til vinstri) er á leið til Sviss á nýjan leik. Vísir/Hulda Margrét

Sunna Guðrún Pétursdóttir hefur samið við handknattleiksfélagið GC Amicitia Zürich í Sviss. Markvörðurinn fer þangað frá KA/Þór þar sem hún hefur verið undanfarin tvö tímabil.

Hin 24 ára gamla Sunna Guðrún er ekki á leið til Sviss í fyrsta skipti en hún lék með Zug tímabilið 2019/2020. Sökum kórónufaraldursins þá þurfti Sunna Guðrún að snúa heim til Íslands.

Hún sér ekki eftir því þar sem Sunna Guðrún varð Íslands- og bikarmeistari með KA/Þór á síðasta ári. Markvörðurinn er hins vegar spenntur fyrir flutningunum.

„Það er ekki nema rúm vika síðan að félagið hafði samband við mig. Ég ákvað að stökkva á tilboðið. Bæði var boðið gott og síðan er æðislegt að búa í Sviss,“ sagði Sunna Guðrún í stuttu viðtali við Handbolti.is.

Í viðtalinu segir Sunna Guðrún að hún fái vinnu við námið sem hún var að ljúka. Síðasta vetur lærði hún verkfræði í Reykjavík milli þess sem hún skrapp til Akureyrar til að æfa með KA/Þór í kringum leiki ásamt því að spila með liðinu.

Sunna Guðrún verður ekki eini íslenski leikmaðurinn í liði Amicitia Zürich á næstu leiktíð þar sem Harpa Rut Jónsdóttir samdi við félagið nýverið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.