Skoðun

Undraplantan kannabis

Gunnar Dan Wiium skrifar

Í nokkur ár núna hef ég tekið inn svokallaða kannabínóða. Fyrir þau ykkar sem ekki vita hvað ég er að tala um þá ber að nefna kannabínóðana CBD og THC. Þessir tveir kannabínóðar eru þó bara 2 af þekktum 130 kannabínóðum sem finnast í undraplöntunni Cannabis sativa. Mig langar að skrifa hér nokkur orð um þetta ferli mitt og kannski útskýra aðeins hvað þessir kannabínóðar gera og afhverju þeir eru að virka svona vel við allskonar misalvarlegum kvillum.

Svona til að byrja með langar mig að segja að í mörg ár misnotaði ég kannabínóðann THC. THC er eini kannabínóði plöntunar sem veldur hugarfarsbeytandi áhrifum eða vímu og þegar ég segi að ég hafi misnotað THC þá meina ég að ég hafi notað óþarflega mikið magn af þessum einstaka kannabínóða og í gegnum neyslu á lyfjahamp sem svo olli þeirra vímu sem ég sóttist í á þeim tíma og stað lífs míns. Lyfjahampurinn sem ég notaði var af Indica ættinni en kannabis skiptist í þrjá flokka: Kannabis Sativa (iðnaðarhampur) Kannabis Indica (lyfjahampur) og Kannabis rudialis. Kannabis Indica hefur það háa hlutfall THC sem ég sóttist eftir að nota. Maðurinn með aðferðum sem snúa að ræktun sækist eftir því að keyra magn THC upp og þá alltaf á kostnað kannabínóðans CBD svo einnhver sé nefndur.

Þegar CBD er tekið úr jöfnunni á kostnað aukins magns THC eykst víman en heilunarmöguleikar plöntunar fara dvínandi því það sem CBD´ið gerir er að styðja við taugakerfið á einkar skilvirkan hátt. THC´ið gerir það líka nema hvað að í svo miklu ónáttúrulegu magni og breyttu hlutfalli við aðra kannabínóða hefur THC´ið þau áhrif á vitundina að hún dregst saman og í mínu tilfelli veldur ofsóknaræði, ranghugmyndum, þunglyndi, geðsveiflum og auknum líkum á mis alvarlegu geðrofi.

Það eru nú all nokkur ár síðan ég svo stöðvaði þessa of einangruðu neyslu á kannabínóðanum THC og í dag nota í kannabínóða ekki í þeim tilgangi að komast í vímu sem ég trúi að skekkji vitund mína og skerði samkennd mína gagnvart öðru fólki og einangri mig. Lengi vel í bindindi mínu leit ég á plöntuna sem hættulega mér og öðrum. Ég leit á hana sem vímugjafa eina og sér og að hún væri mér og bindindi mínu stórhættuleg. Ég var í stríði við plöntuna á ómálefnanlegum forsendum og má segja að hugmyndir mínar um plöntuna hafi einkennst af fordómum og fáfræði þótt ég hafi reykt hana nánast daglega í nær tvo áratugi.

Mig langar að útskýra fyrir ykkur kerfið sem kallast á ensku Endocannabinoid system, skammstafast sem ECS. Á íslensku myndi það þýðast sem Endokannabínóðakerfið og því skammstafast sem EKK. Kerfið sem um ræðir er flókið merkjakerfi frá frumunum sem samanstendur af endókannabínóðum, ensímum og kannabínóða-móttökum, sem hafa stjórn á ýmissi starfsemi í mannslíkamanum. Ber að nefna í þessu samhengi hjálp við svefn, lund, matarlyst og meltingu, minni, bólgumyndun, húðvandamál, endurheimt og frjósemi. Þessar flóknu tengingar finnast í heilanum, vefjum og kirtlum og í öllum aðal líffærum okkar.

Kerfið var uppgötvað af tékkneskum vísindamanni árið 1992 í Ísrael og við þessa uppgötvun komust vísindamenn að því að líkaminn framleiðir sína eigin kannabínóða í margvíslegum tilgangi sem kerfið, ECS er hannað til að taka á móti.

Síðustu hundrað ár eða svo hefur hampurinn, plantan verið svert og talin hættuleg og ólögleg. Þá er ég ekki aðeins að tala um Indica afbrigði plöntunar heldur líka ræktun og öll notkun á Iðnaðarhampi sem fyrir áróðursherferð há kapitalískra hagsmunaafla var gríðarlega útbreidd og áberandi sem hráefni í allskonar iðnaði. Má nefna í því samhengi í iðnaði sem snéri að allskonar textíl framleiðslu og pappír svo eitthvað sé nefnt. Þegar stórir hagsmunaaðilar innan pappírsiðnaðarins, stáliðnaðar, plast og pólyester komu saman í einskonar samkurli með íhaldsömu og valdamiklu samfélagi bindindishreyfinga í Bandaríkjunum upp úr 1900 fór af stað mikil viðhorfsbreyting í garð plöntunnar sem svo nú loksins virðist vera í sterkum og jákvæðum viðsnúning.

Núna í ár eru um 2 ár síðan ræktun iðnaðarhamps varð lögleg aftur á Íslandi og síðan þá hefur orðið mikil vitundarvakning í garð hampsins sem og heilsufarslegum ávinning af notkun kannabínóða. Í ár er áætlað að ræktaðir verða um 150-200 hektarar af hamp, ræktendur eru misreynslumiklir og misskilvirkir hvað varðar notkun og vinnslu hampsins. Sumir eru komnir lengra en aðrir og með skýr markmið hvað varðar úrvinnslu og sölu afurða á meðan aðrir eru að fikra sig áfram með óljós markmið þrátt fyrir gríðarlegan áhuga á þeim möguleikum sem afurðin bíður upp á. Sama hve skilvirk úrvinnslan er að hverju sinni þá situr alltaf umhverfisþátturinn eftir því í raun má segja að hampurinn sé að binda um 20 sinnum meira kolefnum en hefðbundin skógrækt og að ca 1 hektari í ræktun sem tekur um 3-4 mánuði sé nóg til að kolefnisjafna einn íslending miðað hvað við losum í dag.

Svona í lokin langar mig að setja fram smá upptalningu á þeim þáttum sem bein notkun á kannabínóðum í formi fæðubótar hefur haft áhrif á. Ég vill byrja á að þeim áhrifum sem langtíma notkun á kannabínóðum hefur haft á lund mína og geð. Ég finn sterkt fyrir léttari lund þar sem ég oft á tíðum hneigðist til þunglyndis og geðsveiflna sem keyrð voru áfram af ótta, langvarandi kvíða og gremju. Þeir þættir sem snúa að lund gera það að verkum að ég er betri í stakk búin að sinna hlutverkum mínum sem faðir, eiginmaður, samstarfsfélagi og almennur samfélagsþegn. Hvað varðar minni, athyglisgáfu og innsæi líður mér eins og ég sé í toppformi þrátt fyrri að umhverfi mitt sé fullt og ríkt af oft á tíðum mjög krefjandi verkefnum. Ég finn sterkt fyrir bólguminnkun í líkamanum sem í raun þýðir að langvarandi stoðkerfisverkir í baki svo eitthvað sé nefnt eru algjörlega horfnir. Ástand húðar, hárs og nagla eru eins best er á kosið auk þess að ég finn fyrir betri og skilvirkari meltingu.

Á sama tíma og ég sjálfur finn fyrir þessum breytum í lífi mínu þökk sé kannabínóðum heyri ég sögur daglega nánast af fólki sem leitar til mín eftir ráðum hvað varðar notkun og val á hinum og þessum olíum sem eru í boði. Þessir einstaklingar eru að losa sig við verkjalyf eftir langvarandi neyslu þeirra sem og notkun hina ýmsu lyfja tengt bólgusjúkdómum, greindu þunglyndi, athyglisbrest, kvíða, svefntruflunum o.s.f.r. Ég hef horft upp á mann standa upp úr gríðarlega alvarlegum og sársaukafullum einkennum Parkison með notkun CBD olía sem fást hér útí búð. Ég hef talað við konur sem sögðu að kannabínóðar í raun komu þeim í gegn um breytingaskeið og svo síðast en ekki síst hef ég talað við fólk sem ber það góðar sögur af kannabínóðum í tengslum við krabbamein svo að þeim megi nánast líkja við kraftaverk.

Olían, CBD olían sem allir eru að tala um fæst í dag út í búð ólíkt því hvernig aðgengið var fyrir aðeins 3-4 árum síðan. Nú getur þú nálgast olíuna í Hagkaup og apótekum ásamt búðum og vefverslunum sem sérhæfa sig í þessari fæðubót sem kannabínóðarnir eru. Ég hef rekst á talsvert magn af svokölluðum “WhiteLable” vörum þarna úti. Þá meint að olían er seld sem íslensk framleiðsla en í raun er aðeins um íslenskt samsetta vöru um að ræða. Kannabínóðarnir eru fluttir inn einangraðir í dufti, blandaðir í nauðsynlega burðarolíu og svo pakkað í fallegar umbúðir. Lítið er um afurð sem flokkast mætti sem heildræn framleiðsla og rík af öllum kannabínóðum plöntunar ásamt öllum þeim sýrum og terpunum sem plantan inniheldur. Með öðrum orðum veljum gott og vandað CBD því í dag erum við í aðstæðu til þess ólíkt því hvernig ástandið var fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Þeir sem vilja kynna sér málefni hampsins á Íslandi frekar er bent á Hampfélagið, þar sem hægt er að skrá sig í félagið og fylgjast með þróun hampsins á Íslandi.

Höfundur er smíðakennari og þáttarstjórnandi hlaðvarpsins Þvottahúsið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×