Handbolti

Orri fær ekki að spila í Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Freyr Gíslason hefur ekki spilað leik síðan árið 2019 og það breytist ekki að þessu sinni.
Orri Freyr Gíslason hefur ekki spilað leik síðan árið 2019 og það breytist ekki að þessu sinni. vísir/bára

Ekkert verður af endurkomu Orra Freys Gíslasonar á handboltavöllinn en til stóð að hann myndi spila með Kadetten í baráttunni um svissneska meistaratitilinn.

Þetta kemur fram á vef handbolta.is þar sem haft er eftir Aðalsteini Eyjólfssyni, þjálfara Kadetten, að öllum að óvörum hafi komið í ljós að reglurnar í svissneska handboltanum kæmu í veg fyrir að Orri mætti spila.

Orri lagði handboltaskóna á hilluna árið 2019 eftir að hafa verið einn albesti varnarmaður Olís-deildarinnar og leiðtogi í liði Vals.

Hann tók boði Aðalsteins um að koma út til Sviss fyrir mánuði síðan, vegna forfalla í liði Kadetten, og hugðist spila í úrslitakeppninni með liðinu.

Þar sem að Orri var samningslaus héldu Aðalsteinn og forráðamenn Kadetten að honum yrði heimilt að spila með liðinu þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn væri lokaður. Það reyndist ekki hægt vegna sérstakrar reglu um þessi mál í Sviss, að sögn Aðalsteins.

„Þetta kom félaginu í opna skjöldu enda hafði ekki reynt á þessa reglu áður í Sviss,“ sagði Aðalsteinn við handbolta.is.

Kadetten byrjar einvígi sitt við Winterthur um svissneska meistaratitilinn á fimmtudaginn en vinna þarf þrjá leiki til að vinna titilinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.