Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Benfica náði mest tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik, en staðan var 15-14, Benfica í vil, þegar gengið var til búningsherbergja.
Magdeburg byrjaði svo síðari hálfleikinn betur og náði þriggja marka forystu. Benfica var þó ekki lengi að vinna það forskot upp og jafnaði metin í stöðunni 23-23. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks og niðurstaðan eftir mínúturnar 60 varð 32-32 og því þurfti að grípa til framlengingar.
Í framlengingunni hélt spennan áfram, en íslendingalið Magdeburg virtist hafa yfirhöndina. Það voru þó liðsmenn Benfica sem toppuðu á réttum tíma og skoruðu þrjú mörk í röð á lokamínútunum. Ómar Ingi minnkaði muninn fyrir Magdeburg í eitt mark á seinustu andartökum leiksins, en nær komst liðið ekki og Benfica fagnaði sigri, 40-39.
Benfica varð því fyrsta portúgalska liðið til að vinna Evrópudeildina í handbolta og þetta var í fyrsta skipti síðan árið 2014 sem þýskt lið vinnur ekki Evrópudeildina.
BENFICA! First ever Portuguese club to win the European League/EHF Cup and first non-German club to win the tournament since Szeged won in 2014. Portuguese handball🔥🔥🔥🔥#handball
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) May 29, 2022
Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson lögðu sitt svo sannarlega af mörku í kvöld, en saman skoruðu þeir 19 mörk. Ómar Ingi skoraði 12 og Gísli Þorgeir sjö.