Handbolti

Elliði skoraði fjögur í öruggum sigri | Íslendingalið Aue fallið um deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson í leik með Íslenska landsliðinu.
Elliði Snær Viðarsson í leik með Íslenska landsliðinu. EPA-EFE/URS FLUEELER

Íslendingaliðin Gummersbach og Aue voru í eldlínunni í 36. umferð þýsku B-deildarinnar í handbolta í kvöld. Elliði Snær Vignisson skoraði fjögur mörk í öruggum 29-23 sigri Gummersbach gegn Rimpar og Íslendingalið Aue er fallið um deild eftir sjö marka tap gegn Dormagen, 28-21.

Gummersbach hefur nú þegar tryggt sér efsta sæti þýsku B-deildarinnar nú þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu. Undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hefur liðið unni 29 leiki á tímabilinu og tapað sjö.

Elliði Snær Viðarsson var drjúgur í sigri liðsins í kvöld, en hann skoraði fjögur mörk úr fimm skotum þegar liðið vann sex marka sigur gegn Rimpar, 29-23. Hákon Daði Styrmisson var hins vegar ekki með Gummersbach vegna meiðsla.

Á hinum enda töflunnar var Íslendindingalið Aue að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Liðið heimsótti Dormagen í kvöld, en Dormagen er einnig í fallbaráttu.

Aue þurfti á sigri að halda til að eiga enn möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, en sjö marka tap þýðir að liðið er fallið um deild.

Arnar Birkir Hálfdánarson komst ekki á blað fyrir Aue og þá kom Sveinbjörn Pétursson ekki við sögu hjá liðinu. Færeyingurinn og fyrrum KA-maðurinn Áki Egilsnes var hins vegar drjúgur fyrir Aue í kvöld og skoraði fjögur mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.