Handbolti

„Veit eiginlega ekki hvenær ég get hætt“

Árni Gísli Magnússon skrifar
Martha Hermannsdóttir.
Martha Hermannsdóttir. Vísir/Hulda Margrét

Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þór, var sár með að hafa dottið úr leik eftir tap gegn Val í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Olís deildar kvenna. Valur sigrar einvígið 3-1.

„Ég er rosalega sorgmædd og við vorum alls ekki tilbúnar að fara í sumarfrí, alltof snemmt, það er ennþá snjór hérna í fjöllunum, en Valsstelpur þær mættu bara rosa tilbúnar og mér fannst við svona pínu þreyttar og það sást pínu, það er náttúrulega rosa stutt á milli leikja og við vorum að keyra heim beint eftir leik á fimmtudag og ég er ekki tilbúin að fara í sumarfrí en það er bara eins gott að Valsstelpur taki þá þennan titil fyrst þær unnu okkur.”

Það tók KA/Þór 8 mínútur að skora fyrsta mark leiksins og þær lenda 4-0 og 7-2 undir. Hvað var gangi í upphafi leiksins?

„Ef ég gæti sagt það, húsið var frábært eins og í síðasta heimaleik og stuðningurinn var frábær en ég veit ekki hvort við vorum stressaðar með það að nú var pressan á okkur að ef við myndum tapa þá værum við búnar en mér leið samt ekki þannig fyrir leik. Mér fannst við pínu svona hægar og eins og við værum pínu þreyttar og aðeins lengi að koma okkur í gang en auðvitað er erfitt að elta þetta lið en það munaði litlu hérna í lokin að minnka þetta niður í eitt en svona er þetta.”

„Að vera komnar þara yfir 7 til 8 mörk í Valsheimilinu og missa það svo niður það er ótrúlega erfitt og við ræddum það alveg að reyna halda góðu köflunum sem lengstum en svona er þetta,” sagði Martha og var augljóslega svekkt yfir að hafa ekki náð að sigra einn leik fyrir sunnan.

Martha er 39 ára gömul og hefur margja fjöruna sopið en er ekki alveg tilbúin að gefa það út strax að skórnir séu farnir upp í hilluna frægu.

„Ég hugsaði þetta fyrir leik, ætlar þetta að verða síðasti leikurinn minn? En skrokkurinn svona er ekkert rosalega góður þannig ég ætla bara að taka stöðuna í sumar og sjá hvernig ég verð.”

Það er erfitt að ætla enda ferilinn eftir þennan leik.

„Og það var erfitt að enda þetta í fyrra sem Íslandsmeisari, ég ætlaði aldeilis að taka annað tímabil þannig ég veit eiginlega ekki hvenær ég get hætt,” sagði Martha að lokum og gat brosað þrátt fyrir sárt tap.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×