Körfubolti

Embiid gagnrýndi Harden: „Fengum ekki Houston Harden“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joel Embiid og James Harden áttu að mynda eitt besta tvíeyki NBA-deildarinnar. Það rættist allavega ekki í vetur.
Joel Embiid og James Harden áttu að mynda eitt besta tvíeyki NBA-deildarinnar. Það rættist allavega ekki í vetur. getty/Tim Nwachukwu

Joel Embiid talaði ekki undir rós eftir að Philadelphia 76ers féll úr leik í undanúrslitum Austurdeildar NBA og gagnrýndi samherja sinn, James Harden.

Sixers fékk Harden í staðinn fyrir Ben Simmons og vonaðist til að það yrði til þess að liðið kæmist loksins í úrslit Austurdeildarinnar. Sú varð ekki raunin því Sixers tapaði fyrir Miami Heat, 4-2, í undanúrslitunum. Miami vann sjötta leik liðanna í nótt, 90-99.

Harden gerði lítið í leiknum, tók bara níu skot, þar af aðeins tvö í seinni hálfleik. Hann endaði með ellefu stig, fjögur fráköst og níu stoðsendingar. Embiid var ekki sáttur með framlag Hardens í leiknum, sé síðan hann kom til Sixers.

„Síðan við fengum hann bjuggust allir við að við fengjum að sjá Houston James Harden. En hann er ekki þannig lengur. Hann er meiri leikstjórnandi. Mér fannst eins og hann, og við allir, hefðum getað verið ágengari. Allir okkar, hvort sem það voru Tyrese [Maxey], Tobias [Harris] eða strákarnir sem komu af bekknum,“ sagði Embiid.

Kamerúnski miðherjinn átti alls ekki góðan leik í nótt, skoraði aðeins tuttugu stig og klikkaði á sautján af 24 skotum sínum. Hann viðurkenndi að Miami hefði verðskuldað að vinna einvígið.

„Allir verða að gera betur. Þetta snýst ekki bara um mig eða Harden. Þegar litið er á allan leikmannahópinn er ástæða fyrir því að við töpuðum fyrir Miami. Við vorum ekki nógu góðir og allir verða að bæta sig,“ sagði Embiid og bætti við að Sixers þyrfti fleiri harðhausa og nefndi sem dæmi PJ Tucker, leikmann Miami.

Í deildarkeppninni var Embiid með 30,6 stig, 11,7 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Í úrslitakeppninni lækkuðu tölurnar hressilega þótt meiðsli hafi vissulega sitt strik í reikning Kamerúnans. Í níu leikjum í úrslitakeppninni var Embiid með 24 stig, 10,6 fráköst og 2,1 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.