Skoðun

Kominn tími á al­vöru mið­bæ í Reykja­nes­bæ

Eggert Sigurbergsson skrifar

Reykjanesbær er vel staðsettur þegar kemur að því að laða til sín verslun og þjónustu við íbúa á Suðurnesjum. Það á ekki síður við um ferðamenn sem renna hjá í milljónatali rétt eins og bærinn sé ekki til. Því miður er fátt sem gleður augað nema breiður af bílaleigubílum sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur verið valinn staður í augnahæð milljóna ferðamanna.

Nýr framsækinn miðbær

Það sem Reykjanesbær þarf á að halda er miðbær sem ekki laðar eingöngu til sín Suðurnesjamenn heldur einnig þær milljónir ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll á ári hverju og munu gera um ókomna tíð.

Miðbærinn þarf að uppfylla óskir um öfluga verslanakjarna sem standast væntingar um allt það helsta sem Ísland hefur upp á bjóða og sinnir jafnframt öllum þörfum sjálfra íbúanna. Miðbær þarf að skarta menningu og sögu Suðurnesja þar sem reisa mætti kjarna endurreistra gamalla bygginga frá Suðurnesjum þar sem ferðamenn og íbúar geta notið þess að versla og njóta matar og veitinga.

Miðbærinn þarf að tengja saman Hafnargötuna, Vatnsnesið og Krossmóa og gera að einu samfelldu verslunar- og þjónustusvæði sem þjónar ekki bara íbúum á Suðurnesjum heldur einnig milljónum ferðamanna sem keyra nú bara fram hjá.

Miðbærinn gæti samhliða orðið miðpunktur ferðaþjónustu um Suðurnes, Gullna hringinn og suðurströndina eins og Reynisfjöru. Jafnvel mætti bjóða upp á dagsferðir í miðbæ Reykjavíkur.

Hvað þarf að gera?

Reykjanesbær þarf að endurskipuleggja Vatnsnesið og færa þann iðnað sem þar er á hentugri stað og gera Keflavíkurhöfn að þróunarsvæði eins og er heimilt að gera samkvæmt hafnarlögum með samþykki ráðherra.

Huga þarf að samgöngum við nýja miðbæinn með því að fjölga leiðum að miðbænum og geta hringtengt umferð um svæðið í stað þess að búa til flöskustúta.

Hver á að borga?

Eðlilega á einkaframtakið að leiða þessa uppbyggingu og bærinn á að sjá til þess að skipulag taki mið af uppbyggingu miðbæjarins.

Reykjanesbær getur lagt til lóðir, eignir og mögulegt byggingarland sem yrði framlag bæjarins í þróunarfélög sem stofnuð yrðu um framkvæmdir sem bærinn gæti síðan selt með hagnaði.

Reykjanesbær á ekki að fjármagna framkvæmdir með lántökum heldur yrðu slíkar lántökur á hendi þeirra þróunarfélaga sem standa munu að uppbyggingu miðbæjarins og því ættu íbúar ekki að sitja uppi með þúsunda milljóna króna afskriftir eins og reyndin er með kísil- og álver þegar allt átti að reddast með stóriðju.

Framtíð Reykjanesbæjar

Framtíðin er björt ef rétt er haldið á spilunum með Reykjanesbæ sem miðstöð verslunar og þjónustu á Suðurnesjum.

Við í Miðflokknum viljum stuðla að stórkostlegri framtíð Reykjanesbæjar með framsýnni hugsun og framkvæma það sem við segjumst ætla að gera.

Höfundur er í 2. sæti Miðflokksins í Reykjanesbæ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×