Körfubolti

Haukarnir endurheimta tvo öfluga leikmenn í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breki Gylfason og Hilmar Smári Henningsson eru komnir aftur í Hauka.
Breki Gylfason og Hilmar Smári Henningsson eru komnir aftur í Hauka. haukar

Haukar fá til baka tvo fyrrum leikmenn sína fyrir átökin í úrvalsdeildinni næsta vetur en leikmennirnir voru kynntir á blaðamannafundi í hádeginu.

Hilmar Smári Henningsson skiptir yfir í Hauka úr Stjörnunni og Breki Gylfason kemur úr ÍR.

Haukarnir eru komnir aftur upp í Subway deildina í körfubolta eftir að hafa unnið 1. deildina með sannfærandi hætti á þessu tímabili.

Hilmar Smári er 21 árs og 196 sentímetra bakvörður en Breki er 25 ára og 204 sentímetra miðherji. Báðir hafa þeir verið í kringum íslenska landsliðið.

Hilmar Smári er uppalinn Haukastrákur en lék með Stjörnunni í vetur eftir að hafa komið frá Spáni þar sem hann spilaði með B-liði Valencia.

Breki er uppalinn Bliki en lék fjögur tímabil með Haukum á sínum tíma þar á meðal þegar þeir féllu vorið 2021.

Í vetur var Hilmar með 12,4 stig, 4,7 fráköst og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í leik með Stjörnunni.

Breki var með 5,0 stig og 2,3 fráköst á 15,0 mínútum í leik með ÍR-liðinu en hann var með 8,8 stig og 5,9 fráköst í leik með Haukum veturinn 2020-21.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.