Skoðun

Heilsu­eflandi sam­fé­lagið Fjarða­byggð

Salóme Rut Harðardóttir skrifar

Fjarðabyggð hóf þátttöku í verkefninu heilsueflandi samfélag árið 2017. Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúða.

Í Fjarðabyggð er öflugt og fjölbreytt íþróttastarf fyrir börn og ungmenni, sem er gríðarlega mikilvægt, enda hafa rannsóknir sýnt að ein besta forvörn fyrir börn og ungmenni er þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Fjarðalistinn vill leggja áherslu á að efla íþróttamálin og tryggja enn frekar að öll börn og ungmenni í Fjarðabyggð geti stundað sínar íþróttagreinar óháð búsetu innan kjarnans. Með tilkomu gjaldfrjálsra almenningssamgangna frá haustinu 2021 hefur aðgengi að íþrótta- og tómstundastarfi stóraukist. Þetta er verkefni sem þarf að vinna enn frekar og mikilvægt að þróa það og bæta m.a. í samstarfi við íþróttafélögin svo að samgöngurnar þjóni tilgangi sínum sem allra best. Við hörmum að áætlanir um akstur upp á skíðasvæði fyrir iðkendur sem lögðu stund á skíðaíþróttina í vetur hafi ekki verið eins og til stóð. Það er verkefni sem verður að gera úrbætur á og vera klárt fyrir næsta vetur.

Fjarðalistinn telur einnig mikilvægt að leggja áherslu á að efla tómstundir hjá þeim hópi sem finnur sig ekki í hefðbundnu íþróttastarfi og þeim sem hætta í íþróttum á unglingsaldri. Rannsóknir sýna að brottfall úr íþróttum er mjög hátt hjá iðkendum á unglingsaldri og mikilvægt að hafa önnur úrræði í boði fyrir þessi ungmenni svo að þau einangrist ekki.

Nýlega undirritaði Fjarðabyggð samning við Dr. Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðing sem snýr að hreyfingu og heilsueflingu eldri aldurshópa. Janusarverkefnið eins og það er kallað átti að fara af stað árið 2020 en frestaðist vegna Covid faraldurs en mun nú loksins hefja göngu sína seinna á þessu ári sem er mjög gleðilegt.

Fjarðalistinn mun halda áfram að berjast fyrir bættu umhverfi til heilsu- og íþróttaiðkunar í Fjarðabyggð. Ljúka þarf hönnun og uppbyggingu göngu- og hjólreiðastíga í Fjarðabyggð, enda mikið lýðheilsumál að allir íbúar geti nýtt stígana sér til hreyfingar og heilsubótar. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi endurbætur á íþróttamannvirkjum og tryggja gott aðgengi allra að þeim. Klára þarf endurbætur á Fjarðabyggðarhöllinni, en beðið er eftir burðarþolsmati til að loksins verði hægt að taka næstu skref í því stóra verkefni. Bæjarstórn hefur tekið ákvörðun um að ráðast í viðgerð á sundlauginni á Reyðafirði svo að skólabörn á Reyðarfiði komist þar í skólasund. Þeirri viðgerð þarf að ljúka sem allra fyrst. Einnig þarf að lagfæra Eskifjarðarvöll svo að hann standist kröfur um keppnisvöll.

Höfundur er íþróttakennari og forvarnarfulltrúi. Hún skipar 9. sæti Fjarðalistans – lista félagshyggjufólks í Fjarðabyggð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×