Handbolti

Stefán Rafn fær að spila í Eyjum þrátt fyrir rautt í tveimur leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmansson verður með Haukaliðinu annað kvöld.
Stefán Rafn Sigurmansson verður með Haukaliðinu annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Haukamenn fengu góðar fréttir frá fundi aganefndar HSÍ í gær en þar kom í ljós að hornamaðurinn öflugi Stefán Rafn Sigurmannsson verður ekki í banni í leiknum mikilvæga á móti ÍBV í Eyjum á morgun.

Stefán Rafn hefur fengið rautt spjald í tveimur leikjum í úrslitakeppninni, fyrst í leik á móti KA og svo aftur í fyrsta leiknum á móti ÍBV.

Á fundi aganefndar HSÍ var niðurstaðan sú að teknu tilliti til skýrslu dómara að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er athygli á stighækkandi áhrifum útilokana vegna slíkra brota.

Stefán Rafn verður því með Haukum í öðrum leik í undanúrslitunum en Eyjamenn unnu fyrsta leikinn og geta því komist í 2-0.

Stefán fékk rauða spjaldið í síðasta leik fyrir brot á Dag Arnarssyni á 50. mínútu en Eyjamenn voru þá komnir fjórum mörkum yfir, 30-26. Stefán skoraði fjögur mörk úr fimm skotum áður en hann var rekinn í sturtu.

Það sluppu ekki allir jafnvel og Stefán. Árni Stefánsson þjálfari HK, fékk aftur á móti eins leiks bann fyrir framkomu sinni í leik HK á móti Fram í 4. flokki karla.

Hér fyrir neðan má sjá úrskurð aganefndar frá síðasta fundi hennar 1. maí 2022.

  • Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:
  • 1. Árni Stefánsson þjálfari HK hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu í leik Fram og HK í 3. flokki karla þann 28.04.2022. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að þjálfarinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar.
  • -
  • 2. Stefán Rafn Sigurmannsson leikmaður Haukar hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Hauka og ÍBV í úrslitakeppni Olís deildar karla þann 01.05.2022. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útilokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×