Viðskipti innlent

Tix ræður þrjá úkraínska for­ritara

Eiður Þór Árnason skrifar
Andrii Zhuk, Oleksandr Kraplyuk og Oleksandr Melnichenko hafa þegar hafið störf.
Andrii Zhuk, Oleksandr Kraplyuk og Oleksandr Melnichenko hafa þegar hafið störf. Aðsend

Tix Ticketing hefur bætt við þremur forriturum í hugbúnaðarteymið sitt sem staðsettir eru á nýrri skrifstofu fyrirtækisins í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.

Nýja teymið verður leitt af Andrii Zhuk, en ásamt honum mynda þeir Oleksandr Kraplyuk og Oleksandr Melnichenko nýja teymið. Að sögn Tix er um að ræða reynslumikla forritara og mun teymið leggja áherslu á að styrkja kjarna kerfisins tæknilega og útvíkka Tix lausnina með nýjum og spennandi eiginleikum. Nýja teymið muni styrkja hugbúnaðarteymið sem staðsett er á Íslandi.

„Að útvíkka starfsemi Tix til Úkraínu mun gera okkur kleift að styðja við vöxt okkar með hraðri skölun á umfangi hugbúnaðarins til stoltrar þjóðar sem er þekkt fyrir vinnusemi sína, skapandi lausnir og þrautseigju.” segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Tix, í tilkynningu.

„Við bjóðum þá Andrii, Oleksandr og Oleksandr hjartanlega velkomna í teymið! Þeir eru allir þrír með umfangsmikla reynslu af hugbúnaðarþróun sem mun nýtast okkur afar vel og styrkja teymið enn frekar. Við hlökkum mikið til að kynnast þeim og erum sannfærð um að þetta skref hjálpi okkur að halda áfram að þjónusta menningarhús sem allra best með það að markmiði að nútímavæða og einfalda miðasölu starfsemi þeirra.” segir Ragnar Skúlason, sem leiðir hugbúnaðarþróun Tix.

Tix Ticketing er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum fyrir menningarhús sem selja miða á viðburði af ýmsum gerðum. Meðal viðskiptavina utan Íslands eru Musikhuset Aarhus, Het Concertgebouw í Amsterdam og Kulturhuset Stadsteatern í Stokkhólmi. Að sögn forsvarsmanna hefur Tix vaxið hratt erlendis síðustu ár og starfrækir nú skrifstofur í átta löndum. Þá skipti viðskiptavinir Tix hundruðum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×