Handbolti

Viggó með átta mörk í mikil­vægum sigri Stutt­gart | Gum­mers­bach nálgast efstu deild

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viggó Kristjánsson var markahæstur í dag.
Viggó Kristjánsson var markahæstur í dag. Getty/ Tom Weller

Viggó Kristjánsson lék á alls oddi er Stuttgart vann Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni. Þá er nálgast lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach úrvalsdeildina óðfluga.

Það var nokkuð um að vera hjá Íslendingunum í þýska handboltanum í dag. Viggó Kristjánsson var allt í öllu hjá Stuttgart. Gummersbach vann stórsigur og er í raun aðeins tímaspursmál hvenær lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar tryggja sig upp um deild.

Viggó var allt í öllu er Stuttgart vann fjögurra marka sigur á Leipzig. Lokatölur 29-25 þar sem Viggó var markahæstur með átta mörk.

Melsungen heimsótti Kiel og tapaði naumlega, lokatölur 27-25 heimamönnum í vil. Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen og Arnar Freyr Arnarsson eitt mark.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað þegar Rhein-Neckar Löwen vann N-Lubbecke með sjö marka mun, lokatölur 29-22 gestunum í vil.

Melsungen er í 8. sæti með 29 stig eftir 28 leiki, Löwen situr einu sæti neðar með 28 stig á meðan Stuttgart er í 15. sæti með 18 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.

Fyrr í dag hafði Gísli Þorgeir Kristjánsson tryggt Magdeburg eins marks sigur á Füchse Berlín. Ómar Ingi Magnússon átti einnig frábæran leik í liði Magdeburgar.

Í B-deildinni vann Gummersbach stórsigur á Nordhorn-Lingen, lokatölur 35-25. Elliði Snær Vignisson var með eitt mark fyrir toppliðið.

Lærisveinar Guðjóns Vals eru sem stendur með 10 stiga forystu á N-Lingen sem situr í 3. sætinu þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu. Efstu tvö liðin fara upp um deild.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.