Handbolti

Fengu óvænt framlag frá Færeyjum: „Hún átti leik lífs síns“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Natasja Hammer átti eftirminnilegan leik í KA-heimilinu.
Natasja Hammer átti eftirminnilegan leik í KA-heimilinu.

Haukar fengu framlag úr óvæntri átt í fyrsta leiknum gegn KA/Þór í átta liða úrslitum Olís-deildar kvenna í gær.

Hin nítján ára Natasja Hammer var ekki í stóru hlutverki hjá Haukum í vetur. Sú færeyska fékk aftur á móti tækifæri í leiknum í KA-heimilinu í gær og nýtti það frábærlega. Hún skoraði sex mörk úr sjö skotum og gaf auk þess tvær stoðsendingar. Það dugði þó ekki til því Íslandsmeistararnir unnu þriggja marka sigur, 30-27.

„Þessi stelpa átti leik lífs síns. Hún var gjörsamlega frábær í leiknum. Bara velkomin, mér fannst hún frábær,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested um Natösju í Seinni bylgjunni í gær.

Sunneva Einarsdóttir viðurkenndi að hún hefði ekki alveg átt von á þessari frammistöðu frá Natösju.

„Hún hefur átt fínar innkomur fyrir Haukastelpurnar en þetta var trekk í trekk. Þær þurfa að reima skóna,“ sagði Sunneva og vísaði til gabbhreyfinga Natösju.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Natösju Hammer

Sólveig Lára sagði að KA/Þór yrði að nýta dagana fram að næsta leik til að skoða hvernig ætti að verjast Natösju.

„Hennar aðalfinta er til hægri og þær misstu hana held ég þrisvar eða fjórum sinnum í hana. Það er pottþétt búið að fara yfir það á myndbandsfundum að þessi leikmaður fer til hægri. Það hlýtur að vera,“ sagði Sólveig Lára.

Annar leikur Hauka og KA/Þórs fer fram á Ásvöllum á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 14:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×