Handbolti

„Tek hatt minn ofan fyrir drengjunum mínum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór Sigfússon hrósaði sínum mönnum í hástert eftir sigurinn á FH.
Halldór Sigfússon hrósaði sínum mönnum í hástert eftir sigurinn á FH. vísir/hulda margrét

Halldóri Sigfússyni, þjálfara Selfoss, var eðlilega létt eftir sigurinn á FH, 33-38, í oddaleik í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í kvöld.

„Þetta var tvíframlengt og ansi miklar sveiflur. Það var ekki planið hjá okkur að hleypa þeim inn í leikinn og við þurfum að skoða þessar síðustu tíu mínútur en ég er hrikalega ánægður með mína stráka. Þetta var mikill karakter,“ sagði Halldór í samtali við Guðjón Guðmundsson eftir leikinn í Kaplakrika.

„Við spilum á fáum mönnum, menn meiddust í leiknum en ég tek hatt minn ofan fyrir drengjunum mínum, fyrir það sem þeir lögðu í leikinn og sérstaklega í seinni framlengingunni. Þetta var svakalegur vilji.“

Selfoss komst sjö mörkum yfir, 13-20, eftir tíu mínútur í seinni hálfleik en glutraði því forskoti niður.

„Við vorum í bullandi vandræðum, eins og þeir voru í bullandi vandræðum á löngum köflum. Við tókum leikhlé, ætluðum að fara í sjö á sex en lætin voru mikil, einn sem heyrði ekki og allt fór til fjandans. En við endurstilltum okkur í framlengingunni og gerðum hrikalega vel í sókninni, sérstaklega miðað við það sem við gerðum á tíu mínútna kafla undir lokin,“ sagði Halldór.

Hann fór ekkert í felur með það að leikurinn í kvöld hefði útheimt mikla orku.

„Það fór mikil orka í þetta. Þú ert kominn í svona leik, troðfullt hús, heyrist ekki neitt og frábærir stuðningsmenn. Ég þakka fólkinu okkar fyrir að koma, styðja við bakið á okkur og fleyta okkur áfram þessa síðustu metra,“ sagði Halldór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×