Körfubolti

Njarðvíkingar geta lyft Íslandsbikarnum í Ljónagryfjunni í fyrsta skipti í 31 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýliðarnir úr NJarðvík eru aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum.
Nýliðarnir úr NJarðvík eru aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Vísir/Bára Dröfn

Njarðvíkingar tryggðu sér síðast Íslandsmeistaratitilinn í Ljónagryjfunni árið 1991 en geta endað þá bið í kvöld.

Karla- og kvennalið Njarðvíkur hafa tryggt sér síðustu sjö Íslandsmeistaratitla á útivelli. Í kvöld getur orðið breyting á því þegar Njarðvíkurkonur taka á móti Haukum í fjórða leiknum í úrslitaeinvígi Subway deildar kvenna.

Njarðvíkurkonur hafa unnið tvo af fyrstu þremur leikjum lokaúrslitanna og þriðji sigurinn færir liðið annan Íslandsmeistaratitil kvennaliðs félagsins frá upphafi.

Njarðvík hefur reyndar unnið báða leiki sína á Ásvöllum, heimavelli Hauka í Hafnarfirði, og á því enn eftir að vinna heimasigur í úrslitaeinvíginu.

Njarðvíkurkonur unnu einnig síðasta Íslandsmeistaratitil félagsins en sá kom í hús á Ásvöllum. Njarðvík fékk þá tækifæri til að tryggja sér titilinn í Ljónagryfjunni en tapaði leik þrjú. Þær bættu fyrir það með því að vinna fjórða leikinn örugglega í Hafnarfirðinum.

Karlaliðið varð síðast Íslandsmeistari vorið 2006 en sá titill kom í hús í Borgarnesi. Karlaliðið tryggði sér einnig Íslandsmeistaratitlana 2002, 2001, 1998, 1995 og 1994 á útivelli.

Það þarf að fara alla leið aftur til 11. apríl 1991 til að finna Íslandsmeistaratitil Njarðvíkur sem kom í hús í Ljónagryfjunni.

Konurnar geta endað þá bið í kvöld en leikurinn við Hauka hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds kvenna hefst klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×