Handbolti

Bjarni trúði því ekki að Óðinn hafi ætlað að gera þetta: Sjáðu sirkusmörk Óðins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur skorað tuttugu mörk í fyrsti tveimur leikjunum í einvígi KA og Hauka.
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur skorað tuttugu mörk í fyrsti tveimur leikjunum í einvígi KA og Hauka. Vísir/Hulda Margrét

Landsliðshornamaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson var í miklum ham í öðrum leik KA og Hauka í átta liða úrslitum Olís deildar karla í handbolta.

Óðinn skoraði ellefu mörk í leiknum og mörg þeirra voru af rándýrri gerðinni.

Frammistaða Óðins skilaði KA-mönnum reyndar ekki sigri því Haukar unnu með einu marki og því bíður oddaleikur á Ásvöllum á miðvikudagskvöldið.

Það er ekkert víst að landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson væri ánægður að sjá hann gera þetta í landsliðstreyjunni en strákarnir í Seinni bylgjunni voru yfir sig hrifnir.

„Það er svo gaman að horfa á mörk með Óðni,“ sagði Stefán Árni Pálsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, áður en hann sýndi syrpuna í þættinum í gær.

„Hann er búinn að mastera þetta að hoppa til hliðar, fá markmanninn með sér og setja boltann aftur fyrir bak. Ég hef aldrei séð annað eins,“ sagði Bjarni Fritzson.

„Ég verð bara að segja það að ég held að það séu ekki margir leikmenn í Evrópu sem eru með þessa skottækni. Sjáið þetta mark,“ sagði Stefán Árni.

„Ég bara trúi því ekki að hann hafi verið að reyna að setja hann þarna. Hann hefur fest í harpiksinu. Hann er ótrúlegur,“ sagði Bjarni.

Það má sjá þessi sirkusmörk kappans hér fyrir neðan.

Klippa: Sirkusmörk Óðins á móti Haukum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×