Körfubolti

Stærsti ósigur Bulls á heimavelli í sögu úrslitakeppnirnar

Atli Arason skrifar
Grayson Allen, leikmaður Bucks, í baráttunni við Patrick Williams, leikmann Bulls, í leiknum í nótt.
Grayson Allen, leikmaður Bucks, í baráttunni við Patrick Williams, leikmann Bulls, í leiknum í nótt. Getty Images

Það fóru þrír leikir fram í NBA körfuboltanum í nótt. Allir leikir voru jafnir og spennandi nema leikurinn í Chicago.

Milwaukee Bucks átti ekki í miklum vandræðum með Chicago Bulls en Bucks vann 30 stiga sigur á Bulls í Chicago, 111-81. Var þetta stærsta tap Bulls á heimavelli í úrslitakeppninni frá upphafi. Fimm leikmenn Bucks voru í tveggja stafa stigaskori en Grayson Allen kom af bekknum og var stigahæstur með 22 stig. Hjá Bulls var Nikola Vucevic atkvæðamestur með 19 stig.

Fyrir leikinn í nótt höfðu bæði lið unnið sitthvorn sigurinn en meistararnir frá því í fyrra leiða nú einvígið 2-1 fyrir næsta leik liðanna sem er í Chicago á sunnudaginn.

Trae Young, leikmaður Atlanta Hawks, steig upp í þriðja leik liðsins við Miami Heat en Young hafði ekki verið líkur sjálfum sér í fyrstu tveimur leikjunum. Hawks vann með einu stigi, 110-111. Young var stigahæsti leikmaður Hawks með 24 stig ásamt því að setja niður sigurkörfuna þegar 4,4 sekúndur voru eftir af leiknum.

Eftir að Heat vann fyrstu tvo leikina er Hawks núna komið með einn sigur og staðan í einvíginu er því 2-1. Næsti leikur liðanna er núna á sunnudaginn.

Pheonix Suns, án Devin Booker, tókst að vinna New Orleans Pelicans með þremur stigum í New Orleans, 114-111. Chris Paul og Deandre Ayton stigu upp í fjarveru Booker en báðir gerðu þeir með tvöfaldar tvennur í leiknum. Ayton var með 28 stig og 17 fráköst á meðan Paul var einnig með 28 stig ásamt 14 stoðsendingum. Brandon Ingram, leikmaður Pelicans, var stigahæsti leikmaður vallarins með 34 stig.

Suns leiða einvígið 2-1. Næsti leikur liðanna er á sunnudaginn í New Orleans.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×