Skoðun

„Al­gjört vald“ en engin á­byrgð?

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

„Ég get ekki séð annað, virðulegi forseti, en að ráðherrann hafi algjört vald á því hvernig hann fari með þessi mál,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson þegar frumvarp til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum var til umræðu á Alþingi 20. desember 2012. Hann gagnrýndi að með frumvarpinu væri „Alþingi að veita ráðherra algjört ákvörðunarvald í þessu“. Frumvarpið var samþykkt og þetta er sá lagarammi sem gildir um söluna á Íslandsbanka. Lögin gera ráð fyrir að fjármálaráðherra, aðili sem nýtur trausts meirihluta á Alþingi sem vörslumaður ríkiseigna, ráði ferðinni við sölu á banka og beri ábyrgðina, bæði þegar vel gengur og þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Samkvæmt lögunum gerir Bankasýslan tillögur til ráðherra um sölu. Hún fylgir eftir ákvörðunum ráðherra og leggur fram rökstutt mat á tilboðum sem berast, en það er ráðherra sem hefur yfirumsjón með ferlinu og á að búa þannig um hnútana að markmiðum laganna um opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni sé fylgt. Það er ráðherra sem fer með endanlegt ákvörðunarvald um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu á eignarhlutum. Við slíka meðferð opinbers valds er ráðherra auðvitað bundinn af meginreglum stjórnsýsluréttar. Hann og ráðuneytið undir hans yfirstjórn þurfa að vanda til verka og afla allra nauðsynlegra gagna til að geta tekið upplýstar ákvarðanir.

Eins og Guðlaugur Þór benti á árið 2012 eru lögin skýr um að ákvörðunarvaldið er hjá ráðherra, ekki hjá undirstofnunum eða Alþingi, og þar sem ákvörðunarvaldið liggur, þar liggur líka lagalega og pólitíska ábyrgðin sama hvernig Katrín Jakobsdóttir og þingmenn stjórnarmeirihlutans reyna að telja okkur trú um annað. Útspil formanna ríkisstjórnarflokkanna í morgun um að leggja niður Bankasýsluna, og hengja allar brotalamir í söluferlinu um háls þeirrar stofnunar, verður að teljast nokkuð óvænt, enda hafa formennirnir þrír ekki greint frá því með hvaða hætti Bankasýslan brást; hvort og hvernig framkvæmdin stangaðist á við fyrirmæli fjármálaráðherra. Hafi Bankasýslan vikið með einhverjum hætti frá forskrift ráðherra við söluna og ekki starfað samkvæmt lögum og reglum, þá verða ráðherrar ríkisstjórnarinnar að upplýsa strax um hvað gerðist í stað þess að fara með hálfkveðnar vísur í fjölmiðlum.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar og situr í efnahags- og viðskiptanefnd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×