Innlent

Landsmenn hugi að sóttvörnum

Snorri Másson skrifar
Þau afbrigði fuglaflensuveirunnar sem nú er mest um í nágrannalöndum okkar (H5N1) hafa ekki valdið sýkingum í fólki. Ekki er talin hætta á að smit berist í fólk við neyslu eggja eða kjöts af alifuglum. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum.
Þau afbrigði fuglaflensuveirunnar sem nú er mest um í nágrannalöndum okkar (H5N1) hafa ekki valdið sýkingum í fólki. Ekki er talin hætta á að smit berist í fólk við neyslu eggja eða kjöts af alifuglum. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru því litlar en þó er aldrei hægt að útiloka smit og fólk þarf ávallt að gæta sóttvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum.

Það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef fuglaflensa berst inn á stærri alifuglabú að sögn yfirdýralæknis Matvælastofnunar. Landsmenn eru hvattir til að huga vel að sóttvörnum, ekki síst í kringum dauða fugla.

Á Reykjum í Árnessýslu hefur Birna Þorsteinsdóttir haldið hænur um nokkra hríð - en þegar dauður hrafn fannst utan við hænsnakofann í síðustu viku, og nokkrar hænur veiktust skömmu síðar, var ákveðið að fella allar hænurnar.

„Þetta er náttúrulega bara hundfúlt,“ segir Birna í samtali við fréttastofu.

„Maður var bara svekktur að hafa ekki lokað hænurnar inni um leið og við fundum hrafninn en það hefði nú trúlega verið of seint af því að þær eru alltaf á vappi um svæðið þar sem hann fannst dauður. Þetta virðist gerast mjög hratt af því að hænurnar eru búnar að vera fílhraustar allan daginn og verpa eins og þeim sé borgað fyrir,“ segir Birna. Svo detta hænurnar allt í einu niður dauðar.

Það er ekki óeðlilegt að á þessum tíma árs berist flensur með farfuglum, en áhyggjur Matvælastofnunar nú beinast að stærri alifuglabúum. Í Evrópu hafa fleiri milljónir alifugla verið aflífaðir. En hve mikill gæti skaðinn orðið hér? Gríðarlegur, segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir Matvælastofnunar.

„Það er að segja ef þetta fer inn á alifuglabú, hvort sem það eru kjúklingar eða varphænum, sem eru yfirleitt í þúsundatali. Það er mikil veiki, mikill dauði og það eina sem hægt er að gera er að fella öll dýrin, þetta er ólæknandi. Aflífa þau og farga,“ segir Sigurborg.

Nú er þetta spurning um smitvarnir að sögn Sigurborgar - einkum fugla á milli - því flensuafbrigðið sem nú hefur fundist í fuglum hefur ekki verið að smita fólk að neinu ráði.

 Almennt eru sóttvarnir á alifuglabúum góðar. Því er engin yfirvofandi hætta, en því er beint til almennings að snerta dauða fugla ekki með berum höndum. Og að tilkynna um óeðlilega dauða fugla.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×