Umfjöllun,viðtöl og myndir: Fram 24 – 17 Valur | Fram er deildarmeistari

Andri Már Eggertsson skrifar
Leikmenn Fram fagna deildarmeistara titilinum
Leikmenn Fram fagna deildarmeistara titilinum Hulda Margrét

Fram er deildarmeistari Olís-deildar kvenna í handbolta eftir sjö marka sigur á Val. 

Fram byrjaði leikinn betur og gerði fyrstu tvö mörkin. Gestirnir duttu síðan í gang og gerðu næstu tvö mörkin.

Heimakonur sigldu aðeins fram úr um miðjan fyrri hálfleik þar sem Fram komst þremur mörkum yfir og Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, tók leikhlé í stöðunni 8-5. Á þessum kafla var Valur að fá góð færi en skotin ekki nógu beitt sem Hafdís Renötudóttir var ekki í miklum vandræðum með að verja. Thea Imani Sturludóttir svaraði með því að þruma boltanum í skeytinn.

Thea Imani Sturludóttir skoraði tvö mörkVísir/Hulda Margrét

Leikhlé Ágúst snerist í andhverfu sína þar sem Fram skoraði þrjú mörk í röð og sjö mínútum seinna tók Ágúst annað leikhlé og þá vöknuðu Valskonur og fundu betri takt.

Hafdís Renötudóttir, markmaður Fram, fór á kostum í fyrri hálfleik. Hafdís varði 12 skot og var með 57 prósent markvörslu. Ekki var Saga Sif Gísladóttir, markmaður Vals, síðri en hún varði 10 skot og var með 43 prósent markvörslu í hálfleik.

Fram var þremur mörkum yfir í hálfleik og var deildarmeistarartitilinn í augsýn.

Fyrstu sautján mínúturnar í seinni hálfleik var með því ótrúlegra sem ég hef orðið vitni að í handbolta. Hafdís Renötudóttir bókstaflega skellti í lás. Varnarleikur fram var góður fyrir framan hana og síðan varði hún hvert einasta skot sem fór á markið. 

Hafdís Renötudóttir fór á kostum og varði 23 skotVísir/Hulda Margrét

Val tókst ekki að skora eitt handboltamark á fyrstu sextán og hálfri mínútunni í seinni hálfleik. Það breytti engu máli hvort skotin kæmu fyrir utan, úr hornunum eða á línu. Hafdís varði allt. 

Heimakonur kórónuðu svo niðurlæginguna á þessum kafla þegar Þórey Rósa Stefánsdóttir henti í sirkusmark og kom Fram tíu mörkum yfir 20-10.

Eftir að Valur komst loksins á blað var engin leið fyrir gestina að koma til baka, skíturinn var farinn í viftuna. Fram vann leikinn á endanum með sjö mörkum 24-17 og tryggði sér deildarmeistaratitillinn.

Það var mikil gleði í leikslokVísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Fram?

Það er oft talað um að vörn og markvarsla þurfi að vera í lagi til að vinna handboltaleik. Ef þú færð ekki á þig mark í tæplega sautján mínútur þá áttu sigurinn skilið.

Frammistaða Fram var til fyrirmyndar og ég held að mörg lið verði aðeins smeykari við Fram fyrir úrslitakeppnina eftir svona leik.

Hverjar stóðu upp úr?

Hafdís Renötudóttir einfaldlega vann þennan leik. Hafdís fór á kostum og varði 23 skot sem skilaði 68 prósent markvörslu.

Hornamenn Fram áttu góðan leik. Þær Perla Ruth Albertsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir gerðu sitthvor fjögur mörkin. 

Hvað gekk illa?

Þessi leikur Vals var mikið áhyggjuefni fyrir liðið rétt fyrir úrslitakeppni. Valur komst aldrei yfir í leiknum og sá ekki til sólar í seinni hálfleik. 

Fram breytti um vörn og fór úr því að spila niður á línu og yfir í að hafa leikmann fyrir framan. Það virtist hafa komið Val mikið á óvart því Valur skoraði ekki á tæplega sautján mínútna kafla í seinni hálfleik sem er eitthvað sem ég man ekki eftir að hafa orðið vitni að í efstu deild. 

Hvað gerist næst?

Lokaumferðin spilast öll klukkan 16:00 á fimmtudaginn. Fram fer til Vestmannaeyja og mætir ÍBV á meðan Valur fær KA/Þór í heimsókn.

Ágúst: Fram er með hálft landsliðið

Ágúst Jóhannsson var ekki lengi að klára leikhléin sínVísir/Hulda Margrét

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var afar svekktur með tap gegn Fram. 

„Við gátum ekki keypt okkur mark á fyrsta korterinu í seinni hálfleik, það breytti engu máli hvort sem það voru dauðafæri eða víti Hafdís lokaði markinu. Við gerðum okkur seka um allt of mikið af mistökum á báðum endum vallarins. Það var góður taktur í Fram sem átti sigurinn skilið,“ sagði Ágúst og óskaði Fram til hamingju með deildarmeistaratitilinn.

Ágúst var afar svekktur með að Val hafi ekki tekist að skora í tæplega sautján mínútur.

„Við fengum fullt af góðum færum en Hafdís er frábær markmaður líkt og allt Framliðið sem er með hálft landsliðið. Fram er einnig með öflugan erlendan leikmann í Emmu Olsson sem er því miður að fara út af dómurunum hér á landi og ætlar að flýja til Þýskalands, vonandi er dómgæslan betri þar,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, að lokum. 

Myndir:

Emma Olsson skrifaði undir hjá Borussia Dortmund á dögunumVísir/Hulda Margrét
Það var ósvikin gleði í Safamýrinni eftir leikVísir/Hulda Margrét
Steinunn og Hildur lyftu titlinumVísir/Hulda Margrét
Það var mikil gleði í leikslokVísir/Hulda Margrét
Hildur og Steinunn með bikarinnVísir/Hulda Margrét
Mæðgurnar Harpa og Karen fögnuðu deildarmeistaratitlinumVísir/Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira