Umfjöllun og viðtöl: FH - Afturelding 27-21 | Öruggur FH-sigur og Mosfellingar í vandræðum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 6. apríl 2022 21:45 Einar Örn Sindrason var markahæstur á vellinum með sex mörk. vísir/Hulda Margrét Eftir þrjá leiki í röð án sigurs vann FH öruggan sigur á Aftureldingu, 27-21, í 21. og næstsíðustu umferð Olís-deildar karla í kvöld. Þetta var aftur á móti þriðja tap Mosfellinga í síðustu fjórum leikjum og þeir hafa ekki unnið í sex leikjum í röð. Þeir eru á leið í hreinan úrslitaleik við Fram um sæti í úrslitakeppninni í lokaumferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn. FH-ingar eru enn í 4. sæti deildarinnar og þurfa að ná betri úrslitum en Eyjamenn í lokaumferðinni til að ná 3. sætinu. FH mætir Haukum á meðan ÍBV mætir HK. Þrátt fyrir að sterka leikmenn hafi vantað í leiknum í kvöld sá ekki högg á vatni hjá FH sem var miklu sterkari aðilinn. Sóknarleikur FH var allt það sem sóknarleikur Aftureldingar var ekki, skynsamur, vel útfærður og skilvirkur. Ásbjörn Friðriksson kom bara inn á til að taka vítaköst, og skoraði úr fjórum slíkum, en Einar Örn Sindrason átti glansleik í hans fjarveru, skoraði sex mörk og stýrði FH-sókninni með stæl. Jón Bjarni Ólafsson, Birgir Már Birgisson og Leonharð Þorgeir Harðarson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir FH líkt og Ásbjörn. Phil Döhler átti frábæran leik í marki heimamanna og varði átján skot, eða 49 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Þorsteinn Leó Gunnarsson og Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Aftureldingu. Markvörðurinn Andri Sigmarsson Scheving var langbestur Mosfellinga í kvöld en hann varði sautján skot (fjörutíu prósent). FH var miklu sterkari í fyrri hálfleik og gaf tóninn með því að komast í 5-2. Afturelding svaraði þó fyrir sig og minnkaði muninn nokkrum sinnum í eitt mark. Í stöðunni 7-6 stigu FH-ingar aftur á bensíngjöfina, skoruðu þrjú mörk í röð og komust fjórum mörkum yfir, 10-6. Sóknarleikur Mosfellinga var sama hörmungin og í seinni hálfleiknum gegn Val. Fyrir utan ágætis línuspil og nokkur góð mörk fyrir utan frá Þorsteini Leó var sóknin álíka bitlaus og smjörhnífur. Döhler var í ham í marki FH og varði níu skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik. Andri var ágætur í marki Aftureldingar með átta varin skot (36 prósent) en það dugði skammt. Staðan í hálfleik var 15-10, FH í vil. Jón Bjarni skoraði fimmtánda mark heimamanna eftir frábærlega útfærða sókn í þann mund sem leiktíminn rann út. Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. FH var mun sterkari aðilinn og leikurinn var spilaður á þeirra forsendum. Lið Aftureldingar er rúið öllu sjálfstrausti og það sást langar leiðir að það var ekki líklegt til stórræðanna í kvöld. FH jók muninn í upphafi seinni hálfleiks og náði mest tíu marka forskoti, 25-15, þegar þrettán mínútur voru eftir. Afturelding náði aðeins að laga stöðuna undir lokin og þegar yfir stóð munaði sex mörkum á liðunum, 27-21. Sigursteinn: Nýir menn tóku stærri hlutverk og lögðu ótrúlega mikið til liðsins Sigursteinn Arndal íbygginn á svip.vísir/vilhelm Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður að sjá sína menn rísa upp á afturlappirnar og vinna öruggan sigur á Aftureldingu eftir erfitt gengi að undanförnu. „Ég er ofboðslega ánægður með mitt lið og þessa liðsframmistöðu sem við sýndum í dag. Viljinn til að vinna var mikill,“ sagði Sigursteinn eftir leik. Fyrir leikinn í kvöld hafði FH aðeins unnið einn af síðustu fimm deildarleikjum sínum og steinlegið fyrir Val í Coca Cola bikarnum. En fór hausinn ekkert niður í bringu á þessum erfiða kafla? „Það er rosa auðvelt að fara í eitthvað svoleiðis en við þurftum bara að leita allra leiða til að ná okkar leik fram. Í dag tóku nýir menn stærri hlutverk og lögðu ótrúlega mikið til liðsins,“ svaraði Sigursteinn. Gytis Smantauskas og Jakob Martin Ásgeirsson voru ekki í leikmannahópi FH í kvöld og þá kom Ásbjörn Friðriksson bara inn á til að taka vítaköst. Sigursteinn vildi sem minnst tala um þá. „Þeir eru bara veikir og meiddir og eitthvað. Ég vil einbeita mér að þeim sem komu með frábært framlag í dag. FH-liðið mætti kraftmikið til leiks og gerði hlutina saman,“ sagði Sigursteinn. Gunnar: Þetta leit mjög illa út Gunnar Magnússon sagði slakt gengi síðustu vikna hafa haft áhrif á sína menn í kvöld.vísir/hulda margrét Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var ekki upplitsdjarfur eftir tapið fyrir FH í Kaplakrika í kvöld. „Þetta var rosalega erfitt og bar þess merki að sjálfstraustið hefur fjarað undan okkur. Við vorum fljótir að brotna við smá mótlæti og náðum aldrei að komast í takt við leikinn,“ sagði Gunnar í leikslok en Mosfellingar eru nú án sigurs í sex leikjum í röð. „Við vorum eins og bitlaus hundur í sextíu mínútur. Það lítur kannski út eins og það sé eitthvað andleysi en það er ekki það að menn vilji þetta ekki og leggi sig ekki fram. Sjálfstraustið er bara farið og við þurfum að vinna í andlegu hliðinni. Hún var ekki góð í dag.“ Afturelding skoraði bara 21 mark í leiknum í kvöld og sókn Mosfellinga var mjög óskilvirk. „Við töpuðum boltanum átta sinnum í fyrri hálfleik. Það er sama vandamálið hjá okkur, við gerum of mörg mistök. Svo varði hann [Phil Döhler, markvörður FH] tvö víti og einhver dauðafæri. Það hjálpaði heldur ekki. Þetta leit mjög illa út,“ sagði Gunnar. Í lokaumferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn tekur Afturelding á móti Fram í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni. „Við þurfum að setjast niður, taka hausinn í gegn og fá trú á þetta. Við þurfum að fá sjálfstraust aftur í liðið og mæta með það í næsta leik,“ sagði Gunnar. „Við þurfum að vinna vel í okkar málum og höfum nokkra daga. Við getum miklu meira en þetta og nú er bara úrslitaleikur framundan. Við viljum fara í úrslitakeppnina og þurfum að þjappa okkur saman.“ Olís-deild karla FH Afturelding
Eftir þrjá leiki í röð án sigurs vann FH öruggan sigur á Aftureldingu, 27-21, í 21. og næstsíðustu umferð Olís-deildar karla í kvöld. Þetta var aftur á móti þriðja tap Mosfellinga í síðustu fjórum leikjum og þeir hafa ekki unnið í sex leikjum í röð. Þeir eru á leið í hreinan úrslitaleik við Fram um sæti í úrslitakeppninni í lokaumferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn. FH-ingar eru enn í 4. sæti deildarinnar og þurfa að ná betri úrslitum en Eyjamenn í lokaumferðinni til að ná 3. sætinu. FH mætir Haukum á meðan ÍBV mætir HK. Þrátt fyrir að sterka leikmenn hafi vantað í leiknum í kvöld sá ekki högg á vatni hjá FH sem var miklu sterkari aðilinn. Sóknarleikur FH var allt það sem sóknarleikur Aftureldingar var ekki, skynsamur, vel útfærður og skilvirkur. Ásbjörn Friðriksson kom bara inn á til að taka vítaköst, og skoraði úr fjórum slíkum, en Einar Örn Sindrason átti glansleik í hans fjarveru, skoraði sex mörk og stýrði FH-sókninni með stæl. Jón Bjarni Ólafsson, Birgir Már Birgisson og Leonharð Þorgeir Harðarson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir FH líkt og Ásbjörn. Phil Döhler átti frábæran leik í marki heimamanna og varði átján skot, eða 49 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Þorsteinn Leó Gunnarsson og Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Aftureldingu. Markvörðurinn Andri Sigmarsson Scheving var langbestur Mosfellinga í kvöld en hann varði sautján skot (fjörutíu prósent). FH var miklu sterkari í fyrri hálfleik og gaf tóninn með því að komast í 5-2. Afturelding svaraði þó fyrir sig og minnkaði muninn nokkrum sinnum í eitt mark. Í stöðunni 7-6 stigu FH-ingar aftur á bensíngjöfina, skoruðu þrjú mörk í röð og komust fjórum mörkum yfir, 10-6. Sóknarleikur Mosfellinga var sama hörmungin og í seinni hálfleiknum gegn Val. Fyrir utan ágætis línuspil og nokkur góð mörk fyrir utan frá Þorsteini Leó var sóknin álíka bitlaus og smjörhnífur. Döhler var í ham í marki FH og varði níu skot, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik. Andri var ágætur í marki Aftureldingar með átta varin skot (36 prósent) en það dugði skammt. Staðan í hálfleik var 15-10, FH í vil. Jón Bjarni skoraði fimmtánda mark heimamanna eftir frábærlega útfærða sókn í þann mund sem leiktíminn rann út. Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. FH var mun sterkari aðilinn og leikurinn var spilaður á þeirra forsendum. Lið Aftureldingar er rúið öllu sjálfstrausti og það sást langar leiðir að það var ekki líklegt til stórræðanna í kvöld. FH jók muninn í upphafi seinni hálfleiks og náði mest tíu marka forskoti, 25-15, þegar þrettán mínútur voru eftir. Afturelding náði aðeins að laga stöðuna undir lokin og þegar yfir stóð munaði sex mörkum á liðunum, 27-21. Sigursteinn: Nýir menn tóku stærri hlutverk og lögðu ótrúlega mikið til liðsins Sigursteinn Arndal íbygginn á svip.vísir/vilhelm Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ánægður að sjá sína menn rísa upp á afturlappirnar og vinna öruggan sigur á Aftureldingu eftir erfitt gengi að undanförnu. „Ég er ofboðslega ánægður með mitt lið og þessa liðsframmistöðu sem við sýndum í dag. Viljinn til að vinna var mikill,“ sagði Sigursteinn eftir leik. Fyrir leikinn í kvöld hafði FH aðeins unnið einn af síðustu fimm deildarleikjum sínum og steinlegið fyrir Val í Coca Cola bikarnum. En fór hausinn ekkert niður í bringu á þessum erfiða kafla? „Það er rosa auðvelt að fara í eitthvað svoleiðis en við þurftum bara að leita allra leiða til að ná okkar leik fram. Í dag tóku nýir menn stærri hlutverk og lögðu ótrúlega mikið til liðsins,“ svaraði Sigursteinn. Gytis Smantauskas og Jakob Martin Ásgeirsson voru ekki í leikmannahópi FH í kvöld og þá kom Ásbjörn Friðriksson bara inn á til að taka vítaköst. Sigursteinn vildi sem minnst tala um þá. „Þeir eru bara veikir og meiddir og eitthvað. Ég vil einbeita mér að þeim sem komu með frábært framlag í dag. FH-liðið mætti kraftmikið til leiks og gerði hlutina saman,“ sagði Sigursteinn. Gunnar: Þetta leit mjög illa út Gunnar Magnússon sagði slakt gengi síðustu vikna hafa haft áhrif á sína menn í kvöld.vísir/hulda margrét Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var ekki upplitsdjarfur eftir tapið fyrir FH í Kaplakrika í kvöld. „Þetta var rosalega erfitt og bar þess merki að sjálfstraustið hefur fjarað undan okkur. Við vorum fljótir að brotna við smá mótlæti og náðum aldrei að komast í takt við leikinn,“ sagði Gunnar í leikslok en Mosfellingar eru nú án sigurs í sex leikjum í röð. „Við vorum eins og bitlaus hundur í sextíu mínútur. Það lítur kannski út eins og það sé eitthvað andleysi en það er ekki það að menn vilji þetta ekki og leggi sig ekki fram. Sjálfstraustið er bara farið og við þurfum að vinna í andlegu hliðinni. Hún var ekki góð í dag.“ Afturelding skoraði bara 21 mark í leiknum í kvöld og sókn Mosfellinga var mjög óskilvirk. „Við töpuðum boltanum átta sinnum í fyrri hálfleik. Það er sama vandamálið hjá okkur, við gerum of mörg mistök. Svo varði hann [Phil Döhler, markvörður FH] tvö víti og einhver dauðafæri. Það hjálpaði heldur ekki. Þetta leit mjög illa út,“ sagði Gunnar. Í lokaumferð Olís-deildarinnar á sunnudaginn tekur Afturelding á móti Fram í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni. „Við þurfum að setjast niður, taka hausinn í gegn og fá trú á þetta. Við þurfum að fá sjálfstraust aftur í liðið og mæta með það í næsta leik,“ sagði Gunnar. „Við þurfum að vinna vel í okkar málum og höfum nokkra daga. Við getum miklu meira en þetta og nú er bara úrslitaleikur framundan. Við viljum fara í úrslitakeppnina og þurfum að þjappa okkur saman.“
Uppgjörið: Ísland - Úkraína 27-24 | Sögulegur sigur og stelpurnar okkar á leið í hreinan úrslitaleik