Sport

ÍSÍ ályktar vegna umræðu um þjóðarleikvanga: „Algerlega óásættanlegt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nýir þjóðarleikvangar eru ekki á nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Nýir þjóðarleikvangar eru ekki á nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. vísir/vilhelm

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag vegna umræðu um framtíð þjóðarleik­vanga fyr­ir landslið Íslands.

Eins og greint var frá fyrr í vikunni er ekki gert ráð fyrir nýjum þjóðarleikvöngum í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Margir hafa furðað sig á því að svo sé ekki, enda var hávær umræða fyrir kosningar um þörf á slíkum mannvirkjum.

Í yfirlýsingu ÍSÍ kemur fram að framkvæmdarstjórn sambandsins hafi fundað í gær og telur hún að það sé algerlega óásættanlegt ef ekki sé hægt að hefja undirbúning að byggingu þjóðarleikvanga á þessu ári.

„Framkvæmdastjórn ÍSÍ telur það algerlega óásættanlegt ef ekki verður unnt að hefja á þessu ári undirbúning að byggingu þjóðaleikvanga og leggja þannig af stað í þá vegferð sem nauðsynleg er til að tryggja að íslensk landslið geti keppt á löglegum heimavöllum á Íslandi á allra næstu árum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Það er ekki lengur hægt að víkja sér undan því að bregðast við þeim algerlega ófullnægjandi aðstæðum sem mörg landsliða okkar búa við. Því er brýnt að gert sé ráð fyrir framkvæmdunum í fjármálaáætlun þannig að það fjármagn sem rætt er um að eigi að nota til þessara framkvæmda verði sérstaklega eyrnamerkt þeim.“

Yfirlýsingu ÍSÍ má lesa í heild sinni á heimasíðu sambandsins með því að smella hér.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.