Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Selfoss 25-32 | Selfyssingar keyrðu yfir Víkinga þegar leið á

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
FH - Selfoss Olís deild karla, veturinn 2019-2020. Handbolti.
FH - Selfoss Olís deild karla, veturinn 2019-2020. Handbolti.

Víkingur tók á móti Selfossi í 19. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Víkingar leiddu með einu til tveimur mörkum bróðurpart fyrri hálfleiksins. Selfyssingar gáfu í, í seinni hálfleik og unnu leikinn með sjö mörkum, 25-32.

Víkingar mættu öflugir til leiks og tóku forystuna strax á fyrstu mínútu. Þeir voru agaðir í leik sínum og fylgdu greinilega leiksskipulaginu vel. Selfyssingar áttu erfitt með að koma sér inn í leikinn en þegar að stundarfjórðungur var liðin var jafnt, 7-7.

Þá gáfu Víkingar í og komu sér í þriggja marka forsystu 10-7. Þá tekur Halldór Jóhann, þjálfari Selfoss, leikhlé. Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í eitt mark.

Áfram héldu Víkingar forystunni út fyrri hálfleikinn og var gríðarlegu hraði á síðustu mínútum leiksins. Víkingar voru einu marki yfir þegar að flautað var til loka fyrri hálfleiks, 15-14.

Víkingar héldu forystunni fyrstu tíu mínúturnar af seinni hálfleik. Þá snéru Selfyssingar blaðinu við og þegar um stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleik voru Selfyssingar komnir fjórum mörkum yfir 20-24.

Víkingar virtust missa niður leikskipulagið þetta síðasta korter sem eftir lifði leiks. Þeir misstu mikið boltann í illa útfærðum línusendingum, senda boltann útaf eða sendingar sem gaf Selfyssingum færi á að stela boltanum og keyra í hraðaupphlaup.

Selfyssingar nýttu sér mistök Víkinga út seinni hálfleikinn og komu sér hægt og róla í góða forystu og enduðu á að vinna leikinn með sjö mörkum, 25-32.

Afhverju vann Selfoss?

Selfyssingar mættu talsvert öflugri í seinni hálfleikinn. Þeir voru búnir að vera spila óagaðann leik mest allan fyrri hálfleikinn sem var greinilega farið yfir í hálfleik og lagað. Varnarleikurinn þeirra þéttist og hrökk markvarslan betur í gang. Sóknarlega voru þeir að finna fleiri opnanir og spila boltanum vel á línuna.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Víking var Jóhann Reynir Gunnlaugsson atkvæðamestur með sjö mörk. Hjalti Már Hjaltason var með fimm mörk. Jovan Kukobat var gríðarlega öflugur í fyrri hálfleik og varði mjög vel, hann endaði með 13 bolta varða, 36% markvörslu.

Hjá Selfossi voru Atli Ævar Ingólfsson og Einar Sverrirsson með sjö mörk hvor. Ragnar Jóhannsson var með fimm mörk. Varnarleikur Selfyssingar í seinni hálfleik var líka mjög góður og skilaði það góðri markvörslu hjá Vilius Rasimas.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik var það varnarleikur Selfyssinga sem gekk illa. Víkingar náðu að opna vörnina vel og skora úr dauðafærum. Í seinni hálfleik virtist vera komið stress í Víkinga og köstuðu þeir leikskipulaginu og leiknum í heild sinni frá sér eftir að hafa verið með ágætistök framan af.

Hvað gerist næst?

Næsta umferð fer fram næstu helgi. Á föstudaginn kl 19:30 sækir Víkingur Gróttu heim og á laugardaginn kl 16:00 fá Selfyssingar ÍBV í heimsókn.

Jón Gunnlaugur: Við erum með sextán tæknifeila í leiknum

„Við spiluðum mjög flottan fyrri hálfleik og mættum gíraðir í leikinn. Leikplanið gekk ágætlega upp hjá okkur. Við erum með sextán tæknifeila í leiknum og þar eru tíu til ellefu tæknifeilar síðustu 10-11 mínúturnar. Leikurinn fer úr 20-20 í 32-25, þetta liggur bara þar, “sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, eftir sjö marka tap gegn Selfossi í kvöld.

Víkingar áttu góðan fyrri hálfleik þar sem að leikskipulagið þeirra gekk vel upp og leiddu þeir með einu marki í hálfleik, 14-15. Í seinni hálfleik misstu þeir leikskipulagið niður og því fór sem fór.

„Við vorum ragir í fyrsta lagi. Við vorum að gera hluti þar sem við vorum að leita uppi einhverja aðra í staðinn fyrir að pæla í okkur sjálfum. Mæta í skotið, mæta til þess að skjóta eða fara í gegnum brot ekki mæta til þess að senda hann. Við bökkuðum þegar að þeir fóru í 5-1 vörn og það beit okkur ekki í byrjun. Þegar að áleið leikinn þá sölluðust þessir tæknifeilar upp og þeir fengu mjög mörg einföld mörk. Á móti réðum við ekkert við Atla varnarlega, blokkeringarnar hjá honum voru sterkar. Því fór sem fór.“

Í næstu umferð sækja þeir Gróttu heim og býst Jón við hörkuspennandi leik.

„Ég held að það verði hörku spennandi og skemmtilegur leikur. Við mætum vel gíraðir í þann leik og undirbúum okkur vel eins og alltaf.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira