Handbolti

Skærustu stjörnunni sagt upp í gegnum tölvupóst eftir langa störukeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enginn leikmaður hefur skorað meira fyrir Esbjerg en Estavana Polman, eða 1.270 mörk.
Enginn leikmaður hefur skorað meira fyrir Esbjerg en Estavana Polman, eða 1.270 mörk. getty/Jan Christensen

Hollenska handboltakonan Estavana Polman hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Esbjerg í Danmörku. Hún er ósátt með hvernig staðið var að starfslokum hennar hjá félaginu.

Eftir mikla störukeppni milli Polmans og Jespers Jensen, þjálfara Esbjerg, var henni tjáð að hennar krafta væri ekki lengur óskað hjá félaginu, jafnvel þótt samningur hennar við það renni ekki út fyrr en eftir næsta tímabil.

Polman hefur leikið með Esbjerg frá 2013. Hún hefur þrisvar sinnum orðið danskur meistari með félaginu og er markahæsti leikmaður í sögu þess. En nú er þeirri sögu lokið.

„Undanfarnar vikur hef ég reynt að fá fund með þjálfaranum. Ég túlkaði það þannig að við ættum að hittast og ræða stöðuna. Og ég og ráðgjafi minn reyndum að fá fund með félaginu. En það samþykkti það ekki og þess í stað fékk ég tölvupóst um að ég myndi ekki spila meira fyrir Esbjerg,“ skrifaði Polman á Instagram.

„Það er mikilvægt að fyrir mig að segja að þetta var ákvörðun félagsins og svona sá ég ekki fyrir mér að tími minn hjá því myndi enda.“

Um langt árabil var Polman skærasta stjarna Esbjerg og helsta andlit liðsins. Meiðsli í hné hafa hins vegar hægt á henni og hún hefur átt erfitt með að endurheimta sæti sitt í liðinu.

Polman og Jensen hafa átt í deilum undanfarna mánuði og stjórn Esbjerg hefur nú tekið þá ákvörðun að hún spili ekki meira með liðinu.

„Eftir níu ár hjá félaginu er þetta augljóslega sorgardagur fyrir mig. Ég hef lengi reynt mitt besta til að leysa öll vandamál milli mín, félagsins og þjálfarans. Undanfarnar vikur hef ég reynt að fá fund með þjálfaranum. Því miður verð ég að segja að ég skil ekki ákvörðunina og hvernig henni var miðlað,“ sagði Polman.

Ekki liggur fyrir hvað tekur við hjá henni. Sem fyrr sagði er hún enn samningsbundin Esbjerg og yrði að komast að samkomulagi við félagið um að rifta samningnum ef hún ætlar að spila á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×