Viðskipti erlent

Facebook og Instagram lokað í Rússlandi vegna ofstækis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Meta hefur verið gert að loka á Facebook og Instagram í Rússlandi.
Meta hefur verið gert að loka á Facebook og Instagram í Rússlandi. Getty/Fernando Gutierrez-Juarezþ

Rússneskur dómstóll hefur skipað Meta, móðurfyrirtæki Facebook, að stöðva starfsemi Facebook og Instagram í Rússlandi án fyrirvara. Í úrskurðinum er vísað til „ofstækisvirkni“ og Meta skilgreint sem ofstækisfélag.

Frá því að stríð Rússa í Úkraínu hófst fyrir tæpum fjórum vikum síðan hefur stór hluti hernaðarins farið fram í gegn um veraldarvefinn, meðal annars með mynd- og myndbandabirtingum sem sýna eiga veruleika stríðsins. Bæði Rússar og Úkraínumenn hafa háð netstríð sem fyrst og fremst hefur einkennst í metfjölda falsfrétta, -mynda og -myndbanda sem hafa farið í dreifingu um netið. Stjórnvöld í Rússlandi bönnuðu Facebook upphaflega í byrjun mars og takmörkuðu notkun Twitter.

Rússneskur dómstóll hefur nú gert Meta,  móðurfyrirtæki Instagram og Facebook, að loka í Rússlandi vegna ofstækisvirkni á samfélagsmiðlunum. Fram kemur í frétt TASS, rússnesks fjölmiðils í eigu ríkisins, að meira en 6.400 falsfærslur hafi verið birtar á Instagram frá því að „sértækar hernaðaraðgerðir“ Rússa í Úkraínu hófust. 

Með úrskurði dómstólsins eru miðlarnir tveir bannaðir og Meta skilgreint sem ofstækisfélag. Athygli vekur að bannið nær ekki til spjallþjónustunnar Whatsapp sem er einnig í eigu Meta. Whatsapp er einn vinsælasti samskiptamiðilinn í Rússlandi.

Felix Light, blaðamaður hjá The Moscow Times, segir að Meta sé nú komið í hóp nýnasistahreyfinga, al-Qaeda og stjórnarandstöðuhreyfingar Navalny. Allar hafa verið skilgreindar sem ofstækishreyfingar og starfsemi þeirra bönnuð í Rússlandi.

Segja falsfréttum og boðum á mótmæli dreift á Instagram

Er þar átt við færslur þar sem sagt er „rangt“ frá gangi mála í Úkraínu, að mati rússneskra yfirvalda. Á það til að mynda við færslur þar sem fjallað er um stríðið sem stríð, innrás eða árásir en ekki „sértæka hernaðaraðgerð“ eins og rússnesk yfirvöld kalla stríðið í Úkraínu. 

Í frétt Tass er vísað til nýrrar skýrslu Roskomnadzor, eftirlitsstofnunar Rússlands um virkni á samfélagsmiðlum, að meira en 6.400 slíkar færslur hafi birst á Instagram frá upphafi stríðsins. Þar af séu 4.600 færslur þar sem sagt er rangt frá tilgangi aðgerða Rússa í Úkraínu og 1.800 færslur þar sem hvatt er til óeirða og mótmæla gegn aðgerðunum í Úkraínu. 

Það ber að taka fram að í mörgum tilfellum eru samfélagsmiðlar einu tól Rússa til að heyra og sjá það sem öll heimsbyggðin sér og heyrir frá Úkraínu. Nær allir starfandi miðlar í Rússlandi eru ríkisreknir og þeir fáu sem eru það ekki hafa mjög litla starfsemi innan landamæra Rússlands - lang flestir sjálfstætt starfandi blaðamenn hafa flúið landið eftir að stríðið hófst í Úkraínu. 

Þá hafa Rússar margir hverjir ekki aðgang að erlendum miðlum, svo sem BBC, Radio Free Europe og Deutsche Welle, eftir að yfirvöld í Rússlandi létu loka á miðlana fyrir „dreifingu falsfrétta“ um innrásina. 


Tengdar fréttir

Ólafur Ragnar hafður að háði og spotti á Face­book

Fjölmargir hafa stigið fram á Facebook og fordæmt ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi sitjandi forseta Íslands þau sem hann viðhafði um innrás Rússa í Úkraínu í viðtali við Egil Helgason á Ríkissjónvarpinu í gær. Þar talar fólk tæpitungulaust.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×