Skoðun

Út­hverfin ekki út­undan

Jórunn Pála Jónasdóttir skrifar

Líkt og fjölmargir Reykvíkingar hef ég valið mér að búa í úthverfi. Það eru ýmis lífsgæði fólgin í því að búa í rólegu og fjölskylduvænu hverfi í útjarðri borgarinnar. Nálægð við náttúru og veðursæld veitir einstök tækifæri til að njóta útivistar og hreyfingar undir berum himni.

Viðhald á göngustígum og eignum borgarinnar

Það er þó margt sem mætti gera til að styrkja úthverfi borgarinnar. Komið er að viðhaldi á eignum borgarinnar og innviðum svo sem göngustígum. Gott ástand á stígum er allt í senn aðgengis-, öryggis- og umhverfismál. Einn versti óvinur rafskútunnar og samgönguhjólreiða eru mölbrotnir göngustígar, svo ekki sé talað um fólk sem ferðast um í hjólastól eða með barnavagn. Skólahúsnæði þarf að mæta gæða- og heilsukröfum og vinna þarf upp þann viðhaldshalla sem safnaðist upp á árunum eftir fjármálahrunið árið 2008.

Greiðar leiðir

Íbúar úthverfa þurfa að komast leiðar sinnar um höfuðborgarsvæðið. Flest fjölskyldufólk vantar fleiri mínútur í sólarhringinn en tafsöm umferð er þar að auki ekki til hagsbóta fyrir umhverfið. Grunnþjónusta í nærumhverfi minnkar skutl en mikilvægt að foreldrar fái pláss fyrir börn sín hjá dagforeldrum og leikskólum í sínu hverfi og það án þess að bíða í óvissu á löngum biðlistum. Einnig skiptir máli að glæða úthverfin lífi með menningartengdri starfsemi og viðburðum.

Uppbygging íbúðarhúsnæðis á hagkvæmu byggingarlandi

Loks þarf að tryggja að þessi lífsgæði standi fleirum til boða með því að hefja uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fjölskyldufólk í útjaðri borgarinnar. Það má bæði gera með því að stækka og þétta þau úthverfi sem fyrir eru og með því að byggja nýtt hverfi að Keldum.

Ég vil leggja áherslu á að úthverfin séu efld til muna, tryggja frelsi fólks til að velja sér hvar það vill búa og byggja sér upp heimili.

Höfundur er borgarfulltrúi og frambjóðandi til 4. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 18. og 19. mars 2022



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×