Handbolti

Bjarni skoraði sjö í naumu tapi gegn toppliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sjö mörk í tapi í kvöld.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði sjö mörk í tapi í kvöld. Skövde

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde þurftu að sætta sig við tveggja marka tap er liðið heimsótti topplið Sävehof í sænsku deildinni í handbolta í kvöld, 30-28.

Mikið jafnræði var í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að hafa forystuna. Þegar flautað var til hálfleiks voru það heimamenn í Sävehof sem leiddu með einu marki, staðan 16-15.

Heimamenn náðu svo fljótlega fjögurra marka forystu í síðari hálfleik og virtust ætla að stinga Bjarna og félaga af. Þeim tókst þó ekki að hrista þá alveg af sér og góður kafli á seinustu mínútunum sá til þess að Skövde náði að minnka muninn niður í eitt mark þegar um mínúta var til leiksloka.

Nær komust þeir þó ekki og niðurstaðan varð tveggja marka sigur Sävehof, 30-28. Sävehof trónir á toppi sænsku deildarinnar með 39 stig eftir 23 leiki, sjö stigum meira en Bjarni og félagar sem sitja í þriðja sæti.

Bjarni var næst markahæsti maður vallarins með sjö mörk, en markahæstur var liðsfélagi hans, Jack Thurin, með tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×