Handbolti

„Verður gaman að sjá því Patti tapar varla fyrir Val“

Sindri Sverrisson skrifar
Patreki Jóhannessyni og hans mönnum er vandi á höndum en þeir hafa ekki unnið leik á þessu ári.
Patreki Jóhannessyni og hans mönnum er vandi á höndum en þeir hafa ekki unnið leik á þessu ári. vísir/hulda margrét

Strákarnir í Seinni bylgjunni fóru yfir stöðuna fyrir 17. umferð Olís-deildar karla í handbolta og ræddu meðal annars um það tak sem að Patrekur Jóhannesson virðist hafa á Val undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar.

Valur og Stjarnan mætast í stórleik 17. umferðarinnar á Hlíðarenda annað kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Patrekur hefur fagnað sigri í síðustu níu leikjum sínum í röð gegn Snorra hjá Val, fyrst sem þjálfari Selfoss og svo sem þjálfari Stjörnunnar.

Ásgeir Örn Hallgrímsson tippaði á að tíundi sigurinn í röð kæmi hjá Patreki á morgun, þrátt fyrir slæmt gengi Stjörnunnar að undanförnu.

„Stjarnan er á erfiðum stað núna, búin að taka svolítið af tapleikjum í röð. Það eru miklar sveiflur í leikjum hjá þeim og þeir finna ekki jafnvægi. Það verður samt gaman að sjá þetta því Patti tapar varla fyrir Val. Hann hefur eitthvað tak þar,“ sagði Ásgeir í upphitun Seinni bylgjunnar sem sjá má hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan - Upphitun fyrir 17. umferð

Stjarnan tapaði gegn Selfossi á sunnudaginn, 27-26, á meðan að Valur valtaði yfir KA, 33-20.

„Hraðinn hjá Val er ískyggilegur. Það verður verkefni fyrir Patta að ráða við það hvað þeir refsa rosalega með þessum hraða,“ sagði Stefán Árni Pálsson. Ásgeir svaraði:

„Það hefst náttúrulega með því að vera agaður og skynsamur í sóknarleiknum, og ná helst skoti í hverri einustu sókn. Við sáum svolítið á móti Selfossi að Stjarnan gerði tæknifeila, þegar reynt var að troða boltanum inn á Þórð Tandra, sem var góður en þeir voru aðeins of mikið að leita að honum, og ef þeir fara í þetta þá strauja Valsmenn þá gjörsamlega með hraðanum.“

17. umferð Olís-deildar karla

Fimmtudagur, 3. mars

  • 18.00 ÍBV – Fram
  • 19.30 Grótta – Selfoss
  • 19.30 Víkingur – Afturelding
  • 19.30 HK – Haukar
  • 20.00 Valur – Stjarnan (Stöð 2 Sport)

Föstudagur, 4. mars

  • 18.00 KA – FH (Stöð 2 Sport)
  • 20.00 Seinni bylgjan á Stöð 2 Sport



Fleiri fréttir

Sjá meira


×