Innlent

Þær sem fengu niður­fellingu í með­höndlara­málinu: „Þetta var ó­geðs­legt ferli“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ragnhildur Eik Árnadóttir, Eva Dís Þórðardóttir, Sigrún Jóhannsdóttir og Kolbrún Benediktsdóttir.
Ragnhildur Eik Árnadóttir, Eva Dís Þórðardóttir, Sigrún Jóhannsdóttir og Kolbrún Benediktsdóttir. vísir

Konur sem kærðu meðhöndlara fyrir kynferðisbrot gagnrýna það hve fáar ákærur voru gefnar út í málinu en ellefu af fimmtán málum voru felld niður. Konurnar segja óeðlilegt að horft sé á hvert og eitt mál sjálfstætt og að fjöldi kæra hafi ekki áhrif. Um 40 konur hafa leitað til réttargæslumanns vegna meðhöndlarans.

Í nóvember þyngdi Landsréttur refsingu yfir meðhöndlaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum. Í síðasta mánuði var hann sakfelldur fyrir fimmtu nauðgunina og hefur hann nú verið dæmdur í samtals sjö ára fangelsi fyrir brotin.

Jóhannes hafði haft konurnar til meðferðar hjá sér og byggt upp traust þegar hann braut á þeim er þær lágu fáklæddar og varnarlausar á nuddbekknum. Hann nauðgaði konunum þegar hann rak fingur í leggöng eða endaþarm þeirra án nokkurra tenginga við stoðkerfismeðhöndlunina sem þær þurftu á að halda.

Ragnhildur Eik Árnadóttir og Eva Dís Þórðardóttir eru meðal þeirra kvenna sem voru í meðferð hjá Jóhannesi en Eva var send til hans samkvæmt læknisráði.

„Hann sem sagt lagar á mér úlnliðinn og aðra öxlina og býður mér svo nudd í kjölfarið og brýtur svo á mér,“ segir Eva Dís.

Ragnhildur Eik var í tíma hjá honum vegna bakverkja þegar hann strauk henni um rassinn og stakk fingrum harkalega upp í leggöng hennar.

„Og þetta stendur yfir í virkilega langan tíma. Svo að lokum endar hann á því að snúa mér aftur yfir á bakið og nuddar á mér brjóstin,“ segir Ragnhildur Eik.

„Hvað ef ég hefði getað stoppað þetta?“

Þær tilkynntu atvikið ekki strax til lögreglu og reyndu að loka á þá vanlíðan sem fylgdi.

„Hún var alltaf að verða stærri og stærri þessi tilfinning innra með mér. Hvað ef það eru fleiri konur? Hvað ef ég hefði getað stoppað þetta, en nú sé hann að gera þetta við fleiri konur?“ segir Ragnhildur Eik.

„Þetta brot sem ég upplifði á bekknum hjá Jóa var svo kalt og útreiknað einhvern veginn að þetta sat svo í mér og ég vissi á því hvernig hann hafði hegðað sér gagnvart mér og líka í kjölfarið að ég væri ekki sú eina,“ segir Eva Dís.

Eva Dís Þórðardóttir kærði Jóhannes Tryggva.visir/vilhelm

Fékk samviskubit vegna svara lögreglu

Haustið 2017 líður að því að mál Evu fari að fyrnast. Á þeim tíma hafði hún verið hjá Stígamótum og Bjarkarhlíð og ákveður að leggja fram kæru. Í kjölfarið hringir hún reglulega í lögregluna til þess að athuga stöðuna á málinu og fær þau svör að málið hennar sé ekki í forgangi þar sem að svo mörg mál séu í rannsókn er varði kynferðisbrot gegn börnum. Og að þau mál gangi fyrir.

„Ég man að ég fékk svona samviskubit yfir því að ég væri að reyna að fá eitthvað réttlæti þegar það væri verið að brjóta á börnum og aðrir merkilegri en ég. Svo í byrjun árs 2018 þá gerist eitthvað á samfélagsmiðlum og það eru konur að tala um meðferðaraðila, sem er ekki sjúkraþjálfari, sem sé að brjóta á konum og ég bara vissi þá að þetta væri hann,“ segir Eva Dís.

Hjartað sökk

Seinna sama ár greina fjölmiðlar frá því að lögreglu hafi borist kæra á hendur meðhöndlaranum.

„Hann er ekki nafngreindur eða neitt slíkt en mamma spyr mig: Heldur þú að þetta sé ekki Jóhannes? Hjartað sökk. Ég vonaði ekki. Einhvers staðar var þess getið að Sigrún Jóhannsdóttir væri réttargæslumaður og ég hringi í hana og spyr hvort þetta sé Jóhannes og hún segir já,“ segir Ragnhildur Eik.

Ragnhildur Eik Árnadóttir lagði fram kæru árið 2018.visir/vilhelm

Hélt að það yrð tekið á málinu þegar fleiri kærur bárust

Ragnhildur ákveður í kjölfarið að leggja fram kæru og á svipuðum tíma tínast inn kærur frá fleiri konum.

„Og það sem gerist þá er að þá er mínu máli vísað frá strax og ég var svo hissa því þegar fleiri fóru að stíga fram þá hugsaði ég: Ókei þá kannski verður eitthvað úr málinu mínu. Kannski verður virkilega tekið á þessu. En málinu mínu er bara vísað frá og ég fer í kjölfarið og tala við réttargæslumanninn minn og hún segir að þetta séu vinnubrögðin hjá héraðssaksóknara. Að þegar það séu margir þolendur og margar kærur gegn einum geranda þá séu valin þau mál sem séu líkleg til sakfellingar og hinum er vísað frá,“ segir Eva Dís.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari hafnar því að saksóknari létti sér lífið með því að henda þeim málum út sem talin séu minniháttar.

„Við höfum ákveðnar skyldur sem koma fram í lögunum og hefur margoft verið bent á. Við eigum að horfa á bæði það sem horfir til sektar og sýknu fyrir sakborning og af því að sönnunarbyrðin um allt sem er honum í óhag er á ákæruvaldinu þá þurfum við bara alltaf að fara yfir, og þetta er bara kalt mat sem þarf að leggja á hvert mál fyrir sig og meta út frá þeim sönnunarreglum sem gilda hvort mál séu líkleg eða ekki.“

Kolbrún Benediktsdóttir er varahéraðssaksóknari.stöð2

Sigrún Jóhannsdóttir, sem hefur starfað sem réttargæslumaður fyrir þolendur ofbeldis í yfir áratug og komið að fleiri hundrað málum, tekur að mörgu leyti undir orð Evu Dísar. Hún segist óneitanlega fá þá tilfinningu í sínum störfum að saksóknari ákæri einungis í sterkustu málunum þegar margar kærur berast á hendur einum aðila og segist oft hissa á því hvaða mál séu valin til ákæru. 

Hvað valdi því að sum mál séu valin en önnur ekki? Rökstuðningur í niðurfellingarbréfum sé oft á tíðum óljós og því erfitt að sjá hvað skilur á milli þeirra mála sem eru felld niður og þeirra sem fara áfram í ákæruferli.

Sigrún Jóhannsdóttir hefur starfað sem réttargæslumaður fyrir þolendur ofbeldis í yfir áratug og komið að fleiri hundrað málum.stöð2

Um 40 konur hafa leitað til Sigrúnar vegna meðhöndlarans

Sigrún var réttargæslumaður flestra kvennanna sem kærðu Jóhannes. Í heildina hafa um 40 konur haft samband við Sigrúnu vegna hans. 15 þeirra lögðu fram kæru en ákæra einungis gefin út í fjórum málanna. Ellefu mál voru felld niður og kærði Sigrún niðurfellingu allra þeirra.

„Enda vorum við ósáttar við það að málin hefðu verið felld niður og áttum raunar erfitt með að sjá hvar bar á milli í þessum fjórum sem fóru áfram og þeim sem voru felld niður. Það var erfitt að sjá af hverju þau voru sérstaklega valin,“ segir Sigrún.

Þegar Ragnhildur lagði fram kæru tefldi hún fram allskonar gögnum sem gætu stutt við frásögn hennar. Hún tíndi til Facebook skilaboð, sms og skrifaði niður nöfn tíu vina sem hún hafði sagt frá. Allt sem mögulega gæti komið að notum. 

Segir málið hafa verið illa rannsakað

Einu og hálfu ári eftir að hún leggur fram kæruna fær hún fregnir af því að rannsókn á málinu hafi verið hætt og málið fellt niður þar sem það var ekki talið líklegt til sakfellingar.

„Bæði var það dregið fram að það er ekki búið að rannsaka málið. Það virðist ekkert hafa gerst annað en að þetta hafi legið á borði lögreglu í eitt og hálft ár. Eftir fyrstu vikuna þegar reynt var að hringja í tvö vitni þá virðist ekkert hafa gerst,“ segir Ragnhildur Eik.

Ragnhildur Eik Árnadóttir.visir/vilhelm

Segir lögfræðikunnátuna hafa hjálpað sem sé sorglegt

Mál Ragnhildar var eina málið sem sent var aftur í rannsókn af þeim ellefu sem voru felld niður. Ragnhildur er lögfræðimenntuð og segir að ef hún hefði ekki þekkt til og vitað hverju hún þyrfti að tefla fram, þá hefði mál hennar farið á annan og verri veg.

„Þá því miður þá held ég að mitt mál hefði ekki farið í gegn. Eins og það að finna til Facebook samtöl, það að einhverju leyti skjalfestir að ég hef sagt sömu sögu. Ég hef núna rætt þetta mikið og hef heyrt frá öðrum brotaþolum sem eru bara: „Ha? Já Facebook samtöl, ég á pottþétt Facebook samtöl, en það hefur ekkert verið spurt út í það.“ Og ég var ekki spurð út í það hjá lögreglu hvort að ég væri með eitthvað sem ég gæti sett fram,“ segir Ragnhildur Eik.

„Það var ekkert bara orð á móti orði“

„Það sem var í þeim málum sem voru felld niður það var ekkert bara orð á móti orði. Það voru sálfræðiskýrslur og vitni sem brotaþolar töluðu við ýmist beint á eftir eða fljótlega eftir, löngu áður en fjölmiðlaumfjöllunin fer af stað. Þannig það er alls ekkert þannig að í þessum ellefu málum sem síðar eru 10 að þar hafi bara verið orð á móti orði það var heilmikið af fleiru orðum þar inni í,“ segir Sigrún sem kveðst ósátt með rannsókn málanna.

„Mikið af þeim málum sem voru felld niður og þegar við förum síðan að fara yfir gögnin, sem er alltaf gert, þá kemur í ljós að það eru þarna vitni sem við höfðum bent á sem ekki var haft samband við. Það voru þarna sálfræðingar og læknar sem við höfðum bent á sem ekki var haft samband við. Í einu málinu er farið áfram með rannsókn og þessara afla er gagnað en það er ekki eins í öllum hinum málunum,“ segir Sigrún.

Var spurð hvernig hún hefði verið klædd í nuddtímanum

„Ég man þegar ég fór og kærði var ég spurð hvernig ég hafi verið klædd. Hvort ég hefði sjálf farið úr fötunum, í hvernig nærfötum ég hafi verið í. Hvort ég hafi verið í sokkabuxum,“ segir Eva Dís. 

Hún skrifaði undir það að lögreglan mætti óska eftir greinargerðum frá sálfræðingnum hennar og Stígamótum.

„Og ég veit að það var aldrei beðið um þær.“

Eva Dís Þórðardóttir segir að illa hafi verið staðið að rannsókn málsins.visir/vilhelm

Sönnunarreglur saksóknara eru á þá leið að hann þarf að rannsaka hvert og eitt mál sjálfstætt og hefur fjöldi kæra engin áhrif.

„Sönnunarreglurnar eru bara þannig að ákæruvaldið ber sönnunarbyrðina fyrir öllu því sem er ákærða ekki til hagsbóta þannig við þurfum að skoða sönnunarstöðuna einstaklega fyrir hvern brotaþola ef þeir eru fleiri en einn brotaþoli eða kærandi í máli,“ segir Kolbrún.

Sama má segja ef þolandi er einn en brotin mörg. Saksóknari verður að sanna hvert einasta atvik.

„Þannig í rauninni er sjálfstætt mat sem er tekið á hverju atviki fyrir sig og metið hvort það sé líklegt til sakfellis eða ekki þannig í rauninni má segja nei. Það hefur ekki beint áhrif.“

Eru frásagnir 15 kvenna gegn frásögn sakbornings orð gegn orði?

Þetta gagnrýna konurnar og telja óeðlilegt að í svona umfangsmiklu máli sé bara horft á hvert og eitt mál sjálfstætt.

„Við erum 15 konur og á þessum tíma þá vissi ég ekki um eina einustu konu, ég vissi ekki hverjar þær voru, hafði ekki rætt við þær. Mér finnst sérkennilegt að það sé litið á eitt mál fyrir sig. Ég skil lagalega bakgrunninn fyrir því að maður þurfi að skoða eitt mál fyrir sig en þetta getur ekki talist sem orð gegn orði þegar þú ert með 15 konur sem segja nákvæmlega það sama óháð hvor annarri gegn einu orði. Og ef það er eitthvað sem getur staðfest þeirra orð þá hlýtur það að geta spilað inn í,“ segir Ragnhildur Eik.

Ragnhildur Eik telur sérkennilegt að horft sé á hvert og eitt mál sjálfstættvisir/vilhelm

„Ég er mjög ósátt við þetta fyrirkomulag og ég tel það í rauninni galið að það sé ekki horft til þess að til að mynda einstaklingur hafi gerst jafnvel bara sekur um svipaða háttsemi, að það sé einhvers konar nánast fortakslaust bann við að horfa til þess í öðrum málum sem síðar koma fram,“ segir Sigrún.

„Hann [Jóhannes] er að segja mismunandi hluti í hverri skýrslutöku. Þannig að ef horft er á öll mál í heild sinni þá fer trúverðugleikinn minnkandi út frá því hvað hann segir mismunandi hluti í hverri skýrslutöku, en vegna þess að það er bara tekið eitt mál í einu og horft á trúverðugleikann í þessari einu skýrslutöku þá svona fer ákæruvaldið á mis við það að trúverðugleikinn í heild sinni fer mjög minnkandi,“ segir Sigrún.

Getur verið ákveðinn stuðningur

Kolbrún segir að ef margir brotaþolar sem ekki hafa innbyrðis tengsl lýsi svipuðum atriðum með sértækum hætti geti þau mál stutt hvort annað, en bara upp að vissu marki.

„Þetta getur verið ákveðinn stuðningur en eitt og sér myndi svona hugsanlega ekki duga þannig við sjáum að þetta er stundum svolítil kúnst þegar verið er að meta sönnunarstöðuna í svona málum en grundvallarreglan er þessi, þú getur ekki sagt að af því að sakborningur hefur gerst sekur um og það er búið að sanna að hann hafi brotið gegn þessum aðila þá þýði það ergo að hann hafi þá líka brotið gegn þessum brotaþola. Það virkar ekki þannig.“

„Við hljótum að einhverju leyti að styðja við frásagnir hverrar annarrar og sérstaklega ef það er eitthvað annað. Ef það eru til Facebook samskipti eða fleiri afleidd vitni. Þetta er enn mitt orð en ég er með vitni sem staðfesta það. Ég sagði þetta árið 2012, ég sagði þetta árið 2013. Það er ólíklegt að allir séu í samsæri og ég sé búin að vera með samsæri í 10 ár. En ef það eru einhverjar auka slík sönnunargögn þá er sérstakt að líta ekki til þess að það geti mögulega stutt hin málin,“ segir Ragnhildur.

„Mér finnst mjög eðlilegt að það megi horfa til þess að maður sé haldinn bæði einhvers konar hvötum sem fæstir eru haldnir og að hann sé fær um að stíga þetta skref,“ segir Sigrún.

Vont að fá ekki tækifæri til að mæta dómstólum

Eva Dís segir að það hafi verið vont að fá ekki tækifæri til þess að mæta dómstólum og segir að kerfið hafi brugðist henni.

„Mér finnst að þegar aðrar fóru að stíga fram og aðrar kærur fóru að berast þá hefði mér fundist eðlilegt ef að lögreglan færi að rýna ofan í málið og tæki mitt mál alvarlega,“ segir Eva Dís.

Hélt að hún væri að sinna samfélagsskyldu

Hún segist hafa verið að kæra aðila sem hún taldi nota aðstöðu sína til þess að brjóta á konum.

„Mér fannst ég líka vera að sinna einhverri samfélagsþjónustu. Að lögreglan þyrfti að vita þetta. Ég átti von á þeim viðbrögðum frá lögreglunni að þeir færu strax og hjóluðu í málið. Þarna væri maður á nuddstofu að ráðast á konur og það þyrfti að stöðva hann. Mér hefði fundist það eðlileg viðbrögð. En viðbrögðin voru öll að tefja málið. Ýta mér frá: ,,Þú átt nú ekki að vera troðast fyrir framan einhver börn‘‘ var upplifunin mín,“ segir Eva Dís.

Sigrún Jóhannsdóttir.stöð2

Ragnhildur og Sigrún gagnrýna það að svo fáar ákærur hafi verið gefnar út í málinu og telja að saksóknari ákæri í of fáum kynferðisbrotamálum.

„Vegna þess líka að ef þetta endar alltaf hjá héraðssaksóknara, eða saksóknara þá sjáum við aldrei hvað er að gerast. Þá getum við ekki sé neina dómaframkvæmd og séð hvort það þurfi að breyta lögunum,“ segir Ragnhildur Eik.

Átti oft erfitt með að úrskýra hvers vegna sum mál fóru ekki áfram

„Og svo sitja brotaþolar oft eftir með spurningar sem er ósvarað. Hvers vegna var þetta mál fellt niður? Og svo þegar önnur mál eru valin til að fara áfram er það oft mjög mikil höfnun. Eins og í þessu tilviki átti ég oft mjög erfitt með að skýra hvers vegna þeirra mál fór ekki áfram eins og önnur mál. Hvers vegna þær hafa ekki fengið tækifæri til þess að koma fyrir dómara og lýsa því sem átti sér stað og það sé látið reyna á réttlæti í þeirra málum. Þetta er bara mjög erfitt,“ segir Sigrún.

Saksóknari eigi bara að ákæra í málum sem séu líkleg til sakfellingar

Kolbrún segir að saksóknari sé bundinn af þeirri reglu að hann eigi ekki að ákæra í málum nema hann telji það líklegt til sakfellingar. En það geti verið misjafnt eftir brotaflokkum hvar línan liggur.

„Þegar kemur að kynferðisbrotunum, af því að þau eru svo mikið mat á framburðum, þá hefur það alveg verði viðurkennt í íslenskri framkvæmd og alls staðar held ég að þessi lína liggi kannski aðeins lægra þannig við kannski frekar förum með mál kynferðisbrotamál fyrir dóm heldur en mál af einhverjum öðrum toga,“ segir Kolbrún.

En svo geti menn haft skiptar skoðanir á því hversu langt eigi að teygja sig.

Ragnhildur Eik vill að það sé dómari en ekki saksóknari sem meti hvað hafi áhrif á sönnunarbyrðina.visir/vilhelm

Finnst að dómari eigi að taka ákvörðun en ekki saksóknari

„Mér finnst eins og að þegar við erum með mál af þessari stærðargráðu þá finnst mér ekki að það eigi í raun að vera héraðssaksóknari sem ákveð það hvort að þetta hafi einhver áhrif á sönnunarbyrðina, heldur á þetta bara að vara dómari að mínu mati. Því að þó að dómari eigi að líta á hvert mál fyrir sig þá kemstu ekkert hjá því að ef þú keyrir öll málin saman eins og er alltaf gert í svona málum, þá er dómari bara mennskur og það er margt í þessu,“ segir Ragnhildur Eik. 

„Ef þú ert að meta trúverðugleika frásagna þá er alltaf eitthvað mannlegt. Þú getur ekki tikkað í box eða verið með vísindalegar greiningar, þannig að ef maður myndi keyra öll málin saman þá hlýtur það að hafa einhvers konar áhrif á þessa sönnunarbyrði,“ segir Ragnhildur og bætir því við að hún hafi rætt við saksóknara í Danmörku sem sagði að ef hann fengi margar kærur á borð til sín í svo umfangsmiklu máli myndi hann vilja láta reyna á þær allar fyrir dómi.

„Hún sagði að ef að þau myndi fá svona mörg mál inn á borð til sín þá myndu þau alltaf reyna að hugsa. Okei, það er búið að búa til ákveðna mynd hérna og þau sögðu að þau myndu vilja keyra öll mál fyrir dómstóla því það væri eitthvað sem dómari ætti að taka afstöðu til.“

Það sé að sögn Ragnhildar gert í mörgum innbrotamálum í Danmörku.

„Það er alveg litið til þess í þeim málum, allavegana úti, að þú nærð að sjá einhvers konar „modus.“ Sem er einhvers konar stíll á íslensku. Og það er náttúrulega hægt að gera það hér.“

Eva Dís Þórðardóttir segir að kæruferlið hafi verið ógeðslegt.visir/vilhelm

„Þetta var ógeðslegt ferli“

„Ég veit það ekki ég hef oft dáðst að konum sem að kæra kynferðisofbeldi af því að ég gerði það aldrei. Svo geri ég það þarna í einhverri lokatilraun til þess að standa með mér gegn síðasta gerandanum mínum og þetta var ógeðslegt ferli,“ segir Eva Dís.

„Þegar ég á endanum fæ svo síðustu frávísunina og fæ þessa skýrslu upp í hendurnar þá kannast ég ekkert við þessa konu sem þeir skrifa um í þessari skýrslu. Mér fannst ég niðurlægð og gert lítið úr mér.“

„Samkvæmt þessari skýrslu sem ég fékk í hendurnar eftir niðurfellinguna þá stendur þar svart á hvítu að ég hafi viljað þetta sem gerðist á bekknum hjá honum og mér finnst það bara ógeðslega vont. Sérstaklega í ljósi þess að nú er búið að sakfella hann í fimm öðrum málum.“


Tengdar fréttir

Jóhannes aftur sakfelldur fyrir nauðgun á nuddstofu

Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson var í dag sakfelldur af ákæru um að hafa nauðgað konu á nuddstofu hans árið 2012. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Jóhannes Tryggvi er sakfelldur í sambærilegum málum. 

Telur kyn­ferðis­brot einu skýringuna á and­legu erfið­leikunum

Sálfræðingur sem Ragnhildur Eik Árnadóttir, brotaþoli í nauðgunarmáli á hendur meðhöndlaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni, leitaði til sagði við meðferð málsins að Ragnhildur hefði sýnt mörg einkenni sem algeng væru í kjölfar kynferðisbrota. Ragnhildur leitaði til hennar árið 2018, en meint brot Jóhannesar áttu sér stað í byrjun árs 2012.

Segir mál með­höndlarans hafa skemmt mikið fyrir systur sinni

Systir brotaþola í fimmta nauðgunarmáli ákæruvaldsins á hendur meðhöndlaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni kom fram sem vitni við aðalmeðferð málsins í síðustu viku. Þar bar hún meðal annars um hrakandi líðan systur sinnar eftir að meint ofbeldi átti sér stað og sagðist sem læknir ekki vita til þess að það sem Jóhannesi er gefið að sök geti talist vera meðferð við þeim verkjum sem brotaþoli ætlaði að fá Jóhannes til að meðhöndla.

Lýsti upp­lifun sinni af nudd­tímunum í sögu­legu þing­haldi

Fjöldi vitna var kallaður til við aðalmeðferð í sakamáli á hendur meðhöndlaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni í dag og í gær. Jóhannes hefur verið sakfelldur fyrir fjórar nauðganir en aðalmeðferð í fimmta málinu á hendur honum hófst í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Jóhannes neitaði sök fyrir dómi en vildi annars lítið tjá sig og vísaði til lögregluskýrslu sem tekin var af honum vegna málsins. Þinghald í málinu var opið, sem er óvenjulegt fyrir kynferðisbrotamál.

Neitar að hafa snert brjóst eða kynfæri á óviðeigandi hátt

Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson segist hvorki hafa komið á óviðeigandi hátt við brjóst eða kynfæri ungrar konu sem sætti meðferð hjá honum á meðferðarstofu hans árið 2012. Hann vildi lítið tjá sig fyrir dómi í morgun um ásakanir sem bornar eru á hann, umfram það sem hann hefur áður tjáð sig í skýrslutöku hjá lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×