Handbolti

Viktor og félagar unnu nauman sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG unnu nauman sigur gegn Holstebro í dag.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG unnu nauman sigur gegn Holstebro í dag. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í GOG unnu nauman tveggja marka sigur gegn Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 32-30.

Mikið jafnræði var með liðunum allt frá fyrstu mínútu og liðin skiptust á að skora og hafa forystuna. Heimamenn í GOG náðu þó mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik þegar þeir komust í 15-12, en þegar flautað var til hálfleiks var munurinn aftur kominn niður i eitt mark. Heimamenn leiddu í hálfleik 17-16.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik, en heimamenn náðu þó fjögurra marka forystu í stöðunni 25-21. Gestirnir í Holstebro létu það þó ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu metin í 28-28 þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Ekkert virtist geta skilið liðin að á lokamínútunum, en það voru þó heimamenn í GOG sem unnu að lokum tveggja marka sigur, 32-30.

Viktor Gísli átti fína innkomu í lið GOG og varði fimm skot, en liðið trónir sem fyrr á toppi deildarinnar með 41 stig eftir 21 leik. Holstebro situr hins vegar í ellefta sæti deildarinnar með 16 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×