Handbolti

Fór á kostum þegar hann spilaði Barfly á luftpíanó á hliðarlínunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Karl Úlfarsson flytur Barfly á luftpíanói. Nafni hans, Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar, fylgist með aðförum sjúkraþjálfarans.
Guðmundur Karl Úlfarsson flytur Barfly á luftpíanói. Nafni hans, Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar, fylgist með aðförum sjúkraþjálfarans. stöð 2 sport

Sjúkraþjálfari Aftureldingar var í miklu stuði á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Val í Olís-deild kvenna á dögunum.

Þrátt fyrir stórt tap Mosfellinga, 21-37, tapaði sjúkraþjálfarinn Guðmundur Karl Úlfarsson ekki gleðinni og varð sérstaklega gíraður þegar lagið „Barfly“ með Jeff Who? var spilað fyrir leik. Guðmundur lék á eins konar luftpíanó á hliðarlínunni og lifði sig vel inn í flutninginn.

„Það verður að halda gleðinni,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested í Seinni bylgjunni. „Hann var alveg með þetta,“ bætti Anna Úrsúla Guðmundsdóttir við.

Klippa: Seinni bylgjan - Luftpíanó að Varmá

Svava Kristín Grétarsdóttir, stjórnandi Seinni bylgjunnar, hrósaði svo vallarþulnum í Mosfellsbæ fyrir gott lagaval og sagði að tónlistin fyrir leiki þar bæri af í Olís-deildinni.

Afturelding hefur tapað öllum fimmtán leikjum sínum í Olís-deildinni með samtals 142 marka mun. Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni 26. febrúar.

Innslagið úr Seinni bylgjunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×