Handbolti

Eina: Margar af stjörnum íslenska landsliðsins fóru í handboltaskólann í Kiel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon og Lovísa Thompson eru meðal þeirra sem hafa farið í handboltaskólann í Kiel.
Ómar Ingi Magnússon og Lovísa Thompson eru meðal þeirra sem hafa farið í handboltaskólann í Kiel.

Margar af skærustu stjörnum íslenska handboltans fóru í handboltaskólann í Kiel í Þýskalandi. Guðjón Guðmundsson kynnti sér þennan eina íslenska handboltaskóla í Kiel í Seinni bylgjunni.

Maðurinn á bak við handboltaskólann í Kiel er Árni Stefánsson, þrautreyndur þjálfari sem gerði HK meðal annars að bikarmeisturum 2003 og starfaði lengi við hlið Alfreðs Gíslasonar. Og hann leitaði einmitt til Alfreðs þegar hann vildi setja handboltaskóla á stofn í vöggu handboltans, Kiel í Þýskalandi. Alfreð var þá þjálfari Kiel.

„Fyrir svona tíu árum datt mér í hug að það vantaði handboltaskóla. Það eru til fótboltaskólar og þetta er vinsæl fermingargjöf og annað. Ég talaði við vin minn Alfreð Gíslason hjá Kiel og viðraði hugmyndina við hann og hann gaf grænt ljós á að við mættum koma í heimsókn, fara á æfingu hjá liðinu og hitta leikmenn eftir hana. Þá byrjaði boltinn að rúlla,“ sagði Árni við Gaupa. Að hans sögn eru fimmtíu krakkar í hverri ferð og í sumar verða ferðirnar tvær.

Klippa: Eina - Handboltaskólinn í Kiel

Í handboltaskólanum er farið yfir alla þætti leiksins og krakkarnir fá að kynnast afreksmannaumhverfinu.

„Þetta eru tvær æfingar á dag, fyrirlestrar, myndbandsfundir, alls konar öðruvísi fundir, aukaæfingar og styrktaræfingar. Við förum í allt sem krakkarnir þurfa að læra til að geta orðið afreksmenn í handbolta,“ sagði Árni.

Margt af fremsta handboltafólki Íslands í dag fór í handboltaskólann í Kiel á sínum tíma. Má þar meðal annars nefna Ómar Inga Magnússon, Ými Örn Gíslason, Elvar Örn Jónsson, Elliða Snæ Viðarsson, Söndru Erlingsdóttur og Lovísu Thompson.

„Það má segja að bestu handboltakrakkarnir á landinu sækist í þetta. Það er virkilega gaman að kynnast þessum krökkum og sjá síðan hvert þau fara,“ sagði Árni.

Eina í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×