Handbolti

Bjarni gaf Rúnari KA-treyju og Henry Birgir réðst inn í settið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson með KA-treyjuna.
Rúnar Sigtryggsson með KA-treyjuna. stöð 2 sport

Létt var yfir mönnum undir lok Seinni bylgjunnar í gær þar sem gjöfum var útdeilt og óvæntur gestur lét sjá sig.

Þátturinn var á dagskrá á undan Ofurskálinni og Stefán Árni Pálsson vildi fá að vita hver yrði leikstjórnandi í NFL-liði Olís-deildarinnar.

„Þetta er léttasta spurning sem ég hef fengið á ævinni,“ sagði Bjarni Fritzson. „Það er bara einn leikmaður sem kemur upp í hugann og það er Ási [Ásbjörn Friðriksson] í FH. Leikstjórnendurnir í NFL hafa yfirleitt nokkra eiginleika. Þeir eru oft fullorðnir, með frábæra hendi, reynslumiklir, klókir og í standi. Hann uppfyllir þetta og er með sturlaðar sendingar fram, sem ég þekki af eigin reynslu, og gerir fá mistök.“

Rúnar Sigtryggsson var ekki á sama máli og valdi leikstjórnandann í hinu liðinu í Hafnarfirðinum.

„Tjörvi Þorgeirsson, því hann er með ennþá betri sendingar en Ási. Hann er með fleiri sirkusmörk og það þarf enn meiri nákvæmni í það. Hann er ekkert of hreyfanlegur og ekkert að stressa sig. Honum finnst óþægilegt að láta snerta sig og góður að komast undan. Ég myndi velja hann,“ sagði Rúnar.

Klippa: Seinni bylgjan - Valentínusargjafir og óvæntur gestur

Þótt Bjarni hafi ekki verið sammála Rúnari í valinu færði hann honum gjöf í tilefni Valentínusardagsins, blóm og forláta KA-treyju en fyrir þá sem ekki vita er Rúnar Þórsari.

„Ég hugsaði hvað myndi Rúnar aldrei kaupa sér og það var gjöfin,“ sagði Bjarni. „Ég held þú farir nokkuð með rétt mál þar,“ svaraði Rúnar léttur.

Eftir þessa afhendingu réðist Henry Birgir Gunnarsson inn í myndverið, óþolinmóður að hefja útsendinguna frá Ofurskálinni.

Allt innslagið úr Seinni bylgjunni má sjá spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×