Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Grindavík 104-92 | Gott gengi Blika heldur áfram

Atli Arason skrifar
Blikar fagna
Blikar fagna Hulda Margrét

Breiðablik er áfram á sigurbraut í Subway-deild karla í körfubolta. Að þessu sinni var það Grindavík sem lá í valnum, lokatölur í Smáranum 104-92. Blikar eru svo sannarlega komnir í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni.

Grindvíkingar taka frumkvæðið með fyrstu körfu leiksins. Everage Lee Richardson gefur svo vísbendingar um það sem koma skyldi með því að jafna leikin, stela boltanum svo strax í kjölfarið og koma Blikum yfir í 7-5. Breiðablik leiddi svo leikinn mest allan fyrsta leikhluta þangað til Grindvíkingar jafna í 22-22 þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Þá tók Breiðablik þó aftur völdin og heimamenn unnu fyrsta leikhluta sanngjarnt 32-28.

Gestirnir úr Grindavík voru inn í leiknum í öðrum leikhluta sem var jafn og spennandi. Grindavík nær forystu eftir sniðskot frá Ivan Aurrecoechea í stöðunni 37-39 og liðin skiptust á því að leiða leikinn það sem eftir lifði af öðrum leikhluta þangað til að Frank Booker gerir fimm stig í röð fyrir Breiðablik og Blikar fara með forystu inn í hálfleikinn, 54-50.

Heimamenn komu í töluvert betri gír út í síðari hálfleikinn en Grindvíkingum gekk illa að hitta úr sínum skotum framan af og Blikar byggðu upp forskot sem sveiflaðist á milli 7 og 12 stiga áður en Grindvíkingar ná að minnka munninn niður í átta stig með síðustu fjórum stigum þriðja leikhluta.

Blikar réðu lögum og lofum í síðasta fjórðungnum en heimamenn komu muninum á milli liðana mest upp í 16 stig í leiknum öllum og það var munurinn þegar síðasti leikhluti var hálfnaður, 94-78. Grindvíkingar unnu fyrri leik liðanna með 16 stigum þannig að innbyrðis viðureignin var undir seinni hluta síðasta leikhluta. Grindvíkingum tókst þar að skora fleiri stig en það fór svo að lokum að Breiðablik vann 12 stiga sigur, 104-92.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar voru með 49% skotnýtingu í leiknum og hittu alls úr 19 af 39 þriggja stiga tilraunum sínum. Grindvíkingar fengu fleiri skot í leiknum en hittu ekki eins vel. Heimamenn náðu að stjórna hraðanum vel sem hentar þeirra leikstíl afskaplega vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Hilmar Pétursson var með 26 stig, 5 stoðsendingar og 3 fráköst sem gera 31 framlagspunkt en besti maður vallarins var Everage Lee Richardson sem gerði 32 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 7 fráköst. 34 framlagspunktar hjá Everage.

Ólafur Ólafsson var besti leikmaður Grindavíkur með 23 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. 29 í framlag.

 Hvað gerist næst?

Bæði lið spila aftur á mánudaginn. Grindvíkingar eiga heimaleik gegn Val á meðan að Blikar fara í heimsókn til Keflavíkur.

„Þetta spilaðist eins og við vildum að þetta myndi spilast“

Pétur Ingvarsson á hliðarlínunni í leiknum í kvöldHulda Margrét

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sigurinn og taldi að leikurinn hafi spilast alveg eins og Blikar vildu.

„Þetta spilaðist eins og við vildum að þetta myndi spilast. Þetta var hraður leikur en þeir eru með stórt lið og seinir á fótum á meðan við erum fljótir. Við vissum að þeir gætu ekki hlaupið með okkur í 40 mínútur og það varð raunin,“ sagði Pétur í viðtali við Vísi eftir leik.

„Þeir voru svolítið að setja boltann inn í teig og refsa okkur þar. Við vissum samt á meðan þeir væru að gera það þá myndi sóknin þeirra vera úr takti, þetta er ekki þeirra sóknarleikur og það varð raunin að þeir áttu erfitt með að skora körfur úr þeirra sóknar aðgerðum í seinni hálfleik.“

Innbyrðis staða gegn Grindavík var ekki efst í huga Péturs undir lok leiks heldur lögðu Blikar áherslu á sækja sigurinn frekar en að taka einhverjar áhættu.

„Við vissum það væri 16 stiga munur en við vildum frekar bara vinna. Við erum ekki þannig lið að við getum bara leyft okkur að vinna lið eins og Grindavík með 16 stigum. Við vildum bara vinna þá og það var númer eitt. Við höfum verið að tapa mikið af jöfnum leikjum þannig planið var bara að vinna þá,“ svaraði Pétur, aðspurður út innbyrðis viðureignina.

„Við misstum leikinn frá okkur í þriðja leikhluta“

Daníel Guðni kemur skilaboðum áleiðis til sinna manna í kvöldHulda Margrét

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur var svekktur með niðurstöðuna og telur síðari hálfleik liðsins hafi orðið þeim að falli.

„Þetta er súrt. Við misstum leikinn frá okkur í þriðja leikhluta en þá vorum við ekki að spila okkar sóknarleik eins og við gerðum í fyrri hálfleik. Við þurftum að sætta okkur við mjög léleg skot í síðari hálfleik, langir tvistar og erfið þriggja stiga skot sem var ekki nægilega gott. Það er afleiðing af því að við vorum ekki að ná að klára okkar skot inn í teig og þá færumst við utar,“ sagði Daníel í viðtali við Vísi eftir leik.

„Það er mjög erfitt að eiga við þá. Þetta var kannski allt í lagi á köflum en samt í mýflugumynd. Þeir gerðu mjög vel og við ekki og því fór sem fór.“

„Við vorum ekki að hitta og þegar þeir geta tekið fráköst og hlaupið upp völlinn og tjakkað upp einhverjum þristum þá er mjög erfitt að eiga við þá. Við bara náðum ekki að halda í við þá í kvöld.“

Daníel var súr eftir tapið og var nánast sama um að eiga innbyrðis stöðu á Breiðablik heldur vildi hann horfa fram á vegin og sækja fleiri stig fyrir baráttuna sem er fram undan um sæti í úrslitakeppninni.

„Það er hægt að taka innbyrðis stöðu út úr þessu en við verðum samt að sækja stig. Það eru krefjandi leikir næstu sjö daga en við eigum leik á móti Val og Njarðvík,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, að lokum.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira