Körfubolti

ÍR-ingar ekki í vandræðum með botnliðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jordan Semple skoraði 20 stig fyrir ÍR-inga í kvöld.
Jordan Semple skoraði 20 stig fyrir ÍR-inga í kvöld. Vísir/Vilhelm

ÍR vann öruggan 37 stiga sigur er liðið heimsótti Þór frá Akureyri í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, 108-71.

Janfræði var með liðunum í upphafi leiks, en að loknum fyrsta leikhluta leiddu heimamenn með einu stigi, 19-18.

Gestirnir tóku völdin í öðrum leikhluta og sáu til þess að Þórsarar skoruðu aðeins 13 stig. Sjálfir skoruðu ÍR-ingar 24 og leiddu því í hálfleik með tíu stigum, staðan 42-32 þegar gengið var til búningsherbergja.

ÍR-ingar gerðu svo endanlega út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks, en liðið vann þriðja leikhluta með hvorki meira né minna en 17 stigum. ÍR-ingar fóru því inn í lokaleikhlutann með 27 stiga forskot.

Fjórði og seinasti leikhlutinn var því hálfgert formsatriði fyrir gestina, en ÍR-ingar unnu að lokum öruggan 37 stiga sigur, 108-71.

Sigvaldi Eggertsson var stigahæstur í liði ÍR-inga með 21 stig, en hann tók einnig 12 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Dúi Þór Jónsson var atkvæðamestur heimamanna með 24 stig, tvö fráköst og fimm stoðsendingar.

ÍR situr nú í sjöunda sæti deildarinnar með 14 stig eftir 16 leiki, og er í harðri baráttu við Tindastól, KR og Breiðablik um sæti í úrslitakeppninni. Þórsarar sitja hins vegar sem fastast á botninum með aðeins tvö stig og þurfa á kraftaverki að halda ætli þeir sér að halda sæti sínu í deildinni.

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×