Körfubolti

Íslandsmeistarar Þórs bæta við sig breskum leikmanni sem þekkir Ísland vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, faðmar Kyle Johnson eftir bikarmeistaratitilinn 2020.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, faðmar Kyle Johnson eftir bikarmeistaratitilinn 2020. Vísir/Daníel Þór

Þór úr Þorlákshöfn hefur ákveðið að bæta við fimmta erlenda leikmanninum fyrir lokasprettinn í Subway-deild karla í körfubolta.

Leikmaðurinn er þó mikill Íslandsvinur því Kyle Johnson hefur spilað hér á landi með bæði Stjörnunni og Njarðvík. Hafnarfréttir segja frá þessum liðstyrk hjá Þórsliðinu.

Fyrir hjá Þór eru Bandaríkjamaðurinn Glynn Watson, Daninn Daniel Mortensen, Litháinn Ronaldas Rutkauskas og Argentínumaðurinn Luciano Massarelli.

Massarelli kom inn af bekknum í sigri á Stjörnunni í síðasta leik og var þá með 30 stig og 5 stoðsendingar á 30 mínútum.

Kyle var með 15,1 stig og 7,4 fráköst að meðlatali í leik í fjórtán leikjum á síðustu leiktíð og tímabilið 2019-20 þá var hann með 13,9 stig og 5,2 fráköst að meðaltali í tuttugu leikjum með Stjörnunni.

Kyle spilaði tvo leiki á móti Þorlákshafnarliðnu, var með 15 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar í naumu tapi í Þorlákshöfn í mars og var síðan með 8 stig og 8 fráköst í sigri í Njarðvík í maí.

Kyle hefur unnið tvo titla hér á landi en hann varð bikarmeistari og deildarmeistari með Stjörnunni 2020. Hann var með 14 stig á 27 mínútum í bikarúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×