Handbolti

Danir taka „Íslendinginn sinn“ aftur inn í liðið fyrir undanúrslitin í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Lindberg fagnar einu marka sinna fyrir danska landsliðið.
Hans Lindberg fagnar einu marka sinna fyrir danska landsliðið. EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN

Danir kalla ekki bara á lykilmennina sem þeir hvíldu á móti Frökkum því íslensk ættaði hornamaðurinn Hans Lindberg verður með Dönum í undanúrslitaleiknum á móti Spáni í kvöld.

Það verður mun sterkara dansk landslið sem spilar í undanúrslitaleik EM í kvöld en það lið sem brást okkur Íslendingum á miðvikudagskvöldið.

Það er þó ekki bara stórskytturnar Mikkel Hansen og Mathias Gidsel sem kom inn í liðið heldur einnig hornamaðurinn reyndi Hans Lindberg.

Lindberg greindist með kórónuveiruna fyrir viku síðan eða eftir leik Dana og Íslendinga í milliriðlinum. Hann fór í framhaldinu í einangrun eins og margir leikmenn íslenska landsliðsins hafa þurft að glíma við.

Danska handboltasambandið segir að Lindberg sé nú laus úr einangrun og að hann verði með á móti Spáni.

Hans Lindberg er fertugur og hefur skorað 756 mörk í 272 landsleikjum síðan að hann lék sinn fyrsta landsleik árið 2003. Hann hefur tvisvar orðið Evrópumeistari með Dönum (2008 og 2012) og einu sinni heimsmeistari (2019).

Hann hefur spilað með Füchse Berlin undanfarin ár og er þriðji markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar með 112 mörk í 17 leikjum þar sem hann hefur nýtt 84 prósent skota sinna.

Foreldrar Hans eru bæði Íslendingar eða þau Tómas Erling Lindberg og Sigrún Sigurðardóttir. Hann fæddist í Danmörku og ákvað að spila fyrir danska landsliðið frekar en það íslenska.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.