„Við leggjum þennan leik svipað upp og við höfum verið að gera til þessa í mótinu,“ segir Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari en Noregur hefur verið með eitt besta lið heims undanfarin ár.
„Ef við tölum um varnarleikinn okkar þá þurfum við að halda vel á móti þeim því þeir keyra inn í vörnina og halda boltanum alltaf í leik. Eru líkamlega sterkir og vel spilandi. Við þurfum að spila mjög vel í vörninni á móti þessu góða liði.“
Sóknarleikurinn verður einnig með svipuðu sniði enda gengið vel.
„Sóknin hefur rúllað mjög vel og höldum því áfram á sama hátt. Þetta leikplan sem ég hef talað mikið um hefur haldið leik eftir leik. Það koma nýir menn inn og falla inn í það. Þetta verður fróðleg viðureign.“
Norðmenn misstu af undanúrslitasæti á grátlegan hátt, rétt eins og Ísland. Þetta verður því rimma á milli tveggja særðra dýra.
„Að vissu leyti snýst þetta kannski um hvoru liðinu gengur betur að rífa sig upp í þetta.“