Handbolti

Fékk viðbjóðsleg skilaboð frá Íslendingum eftir tap Danmerkur

Sindri Sverrisson skrifar
Rasmus Boysen þekkir nokkra af leikmönnum danska liðsins og er ekki í nokkrum vafa um að þeir hafi reynt sitt besta til að vinna Frakkland í gærkvöld.
Rasmus Boysen þekkir nokkra af leikmönnum danska liðsins og er ekki í nokkrum vafa um að þeir hafi reynt sitt besta til að vinna Frakkland í gærkvöld. EPA-EFE/Tibor Illyes

Daninn Rasmus Boysen, sennilega helsti handboltafréttamiðlari heimsins, fékk send „viðbjóðsleg“ skilaboð frá Íslendingum og fleirum eftir tap Danmerkur gegn Frakklandi á EM í Búdapest í gær.

Danmörk var með fimm marka forskot þegar skammt var til leiksloka en með mögnuðum endaspretti náðu Frakkar að knýja fram sigur og tryggja sér far með Dönum í undanúrslitin. Eftir sátu Íslendingar með sárt ennið.

Fjöldi Íslendinga fékk útrás fyrir reiði sína á Twitter og sumir létu hana bitna á Boysen, sem ekki hafði sér til saka unnið nokkuð annað en það að vinna magnað starf í þágu íþróttarinnar með umfjöllun um handbolta.

Fann til með Íslendingum en fékk skít og skammir

„Finn svo til með íslenskum vinum mínum í kvöld. Íþróttir eru stundum grimmar… En þetta íslenska lið mun spila í undanúrslitum í framtíðinni!“ skrifaði Boysen en fékk lítið annað en skít og skammir frá öðrum Twitter-notendum, sem margir vildu meina að Danir hefðu hreinlega viljandi tapað leiknum. Sum ummælanna hafa nú verið fjarlægð.

Boysen skrifaði svo langa færslu í gærkvöld þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum með mörg þeirra ummæla sem hann hefði lesið eftir tap Dana.

„Handbolti er herramannaíþrótt. Við berjumst í 60 mínútur, að mestu án ofbeldis eða leikaraskaps. Með virðingu! Á stórmótum sýna stuðningsmenn liðanna hverjir öðrum virðingu og njóta tímans saman,“ skrifaði Boysen. Í gærkvöld hafi hins vegar eitthvað allt annað verið í gangi.

Algjörlega viss um að dönsku leikmennirnir gerðu allt til að vinna

„Eftir tap er í lagi að vera vonsvikinn og reiður. En sum af ummælunum eru viðbjóðsleg og eiga ekki heima í handbolta!

Ég er algjörlega viss um að dönsku leikmennirnir (ég þekki suma af þeim persónulega) gerðu ALLT til að vinna. Það er algjör vanvirðing að halda öðru fram,“ skrifaði Boysen og benti fólki á að allt getur gerst í handbolta. Það sé líka eðlilegt að þjálfari Dana hafi viljað veita Mikkel Hansen og Mathias Gidsel nauðsynlega hvíld í gær fyrst tækifæri gafst:

„Nikolaj Jacobsen ætti bara að hugsa um eitt – að vinna Evrópumótið. Ef hann heldur að líkurnar á því aukist með því að hvíla stjörnuleikmenn gegn Frakklandi þá á hann auðvitað að gera það. Það er vinnan hans! Það er sorglegt fyrir Ísland en þið þurfið að sætta ykkur við það.“


Tengdar fréttir

Þjálfari Dana: „Mjög svekktur að hafa tapað“

„Við vildum allir saman vinna leikinn, á því leikur ekki nokkur vafi,“ sagði Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska landsliðsins, svekktur eftir 30-29 tapið gegn Frakklandi á EM í handbolta í gær.

Ísland grátlega nærri undanúrslitunum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta komst ekki áfram í undanúrslit Evrópumótsins í handbolta. Þess í stað mun liðið leika um fimmta sæti mótsins á föstudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.