Handbolti

Björgvin má ekki mæta Svartfellingum en skráir sig ekki sem áhorfanda

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson er allt annað en sáttur með mótshaldara í Búdapest.
Björgvin Páll Gústavsson er allt annað en sáttur með mótshaldara í Búdapest. Getty

Nú er orðið ljóst að Björgvin Páll Gústavsson þarf að vera áfram í einangrun og má ekki mæta Svartfjallalandi á eftir í leiknum mikilvæga á EM í Búdapest.

Björgvin greindist smitaður af kórónuveirunni síðastliðinn miðvikudag en losnaði úr einangrun fyrir leikinn gegn Króatíu á mánudag og var með í honum.

Hann greindist hins vegar aftur með smit í gær og var skikkaður aftur í einangrun, og greindi frá því á samfélagsmiðlum rétt í þessu að hann yrði ekki með gegn Svartfjallalandi.

Björgvin bendir á að samkvæmt landslögum í Ungverjalandi sé hann í raun laus úr einangrun en þar sem EHF setur strangari reglur þarf hann að dúsa inni á hótelherbergi vilji hann eiga möguleika á að spila á föstudaginn, ef Ísland kemst í undanúrslit eða leikinn um 5. sæti.

Björgvin ætlar því ekki að skrá sig af mótinu og mæta sem áhorfandi á leikinn í dag heldur bíða og vona að þátttöku Íslands á EM ljúki ekki í dag. Hann lætur þess getið að hann, þríbólusettur, sé búinn að vera fullfrískur allan tímann í einangruninni.

Alls hafa ellefu leikmenn Íslands greinst með kórónuveiruna síðustu vikuna en ekki er útilokað að einhverjir losni úr einangrun fyrir leik í dag, þó að afar stutt sé í leik en hann hefst klukkan 14.30 að íslenskum tíma.

Þeir sem hafa greinst eru þeir Björgvin Páll, Elliði Snær Viðarsson, Ólafur Guðmundsson, Elvar Örn Jónsson, Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason, Daníel Þór Ingason og Vignir Stefánsson. Þá greindist sjúkraþjálfarinn Jón Birgir Guðmundsson einnig með veiruna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.