Skoðun

Ný veitingahús sitja í súpunni

Þorgeir Helgason skrifar

Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt rekstrarumhverfi veitingahúsa hefur verið á umliðnum tveimur árum þar sem samkomutakmarkanir og skertur afgreiðslutími hafa hamlað rekstrinum svo um munar. Það var því fagnaðarefni þegar ríkisstjórnin tilkynnti að mælt yrði fyrir frumvarpi um veitingastyrki á Alþingi.

Fögnuðurinn entist hins vegar skammt þegar í ljós kom að viðspyrnustyrkurinn sem bjóða á nýjum og nýlegum veitingahúsum er sama marki brenndur og fyrri úrræði ríkisstjórnarinnar. Á meðan eldri veitingahús fá styrki greidda miðað við tekjur sem þau höfðu árið 2019 þurfa ný veitingahús að reikna út meðaltekjur á lamandi veirutímum og bera þær saman við tekjur á lamandi veirutímum. Bersýnilega er erfitt að sýna fram á tekjutap á milli tímabila þegar reksturinn hefur nánast aðeins verið rekinn á tímum sóttvarnaraðgerða.

Í tilfelli 27 mathúss & bars, sem tók til starfa þann 11. mars. 2020, ber við umsókn um viðspyrnustyrk að miða við meðaltekjur veitingastaðarins frá 11. mars 2020 til 30. nóvember 2021. Um er að ræða 629 daga tímabil. Á því tímabili voru einungis 34 dagar þar sem engar sóttvarnarráðstafanir voru í gildi. Í heildina voru 10-50 manna samkomutakmarkanir í gildi 291 dag sem er nánast um annan hvern dag frá því að veitingastaðurinn hóf rekstur. Enn fremur var skertur afgreiðslutími í 273 daga á umræddu tímabili.

Það er því í engu falli raunhæft eða sanngjarnt að hafa til viðmiðunar um tekjufall veitingastaðar á tímabili þar sem harðar og hamlandi samkomutakmarkanir og skertur afgreiðslutími ríkti annan hvern dag. Þessu má líkja við að setja saklausan mann í fangelsi og ætla síðar að borga honum bætur en miða þá við tekjurnar sem hann hafði í fangelsinu.

Sanngjarnt og eðlilegt væri að leyfa nýjum veitingahúsum að sýna meðaltekjur á þeim tímabilum sem samkomutakmarkanir voru ekki við lýði eða ekki hamlandi í þessum geira. Þannig er 102 daga tímabilið frá 28. ágúst 2021 til 8. desember 2021 sérstaklega vel til þess fallið. Á þessu tímabili miðuðust samkomutakmarkanir við 200-2000 manns í rými og afgreiðslutími var ekki skertur.

Rekstrarumhverfi veitingahúsa er alveg nógu erfitt þótt við sem ný erum í bransanum þurfum ekki að keppa í verði og þjónustu við veitingahús sem njóta ríkra ríkisstyrkja.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú borist umsögn frá átta nýstofnuðum veitingahúsum þar sem hvatt er til þess að sanngirni sé gætt við úthlutun ríkisstyrkja til veitingahúsa. Ég trúi ekki öðru en að þingmenn horfi til þeirra athugasemda og breyti frumvarpinu til hins betra.

Höfundur er lögfræðingur og framkvæmdastjóri 27 mathús & bar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.