Handbolti

Lemstraðir lærisveinar Alfreðs fögnuðu sigri í lokaleiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska handboltalandsliðinu enduðu Evrópumótið á sigri.
Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska handboltalandsliðinu enduðu Evrópumótið á sigri. Christina Pahnke - sampics/Corbis via Getty Images

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska handboltalandsliðinu unnu sinn seinasta leik á EM með minnsta mun er liðið mætti Rússum í dag, 30-29.

Nokkuð jafnræði var með liðinum í upphafi leiks þar sem liðin skiptust á að skora. Þjóðverjar náðu þó fjögurra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn, en Rússarnir jöfnuðu fljótt aftur.

 Þjóðverjarnir settu þó í fluggírinn undir lok fyrri hálfleiksins og náðu fjögurra marka forskoti á ný og staðan var 16-12 þegar gengið var til búningsherbergja.

Rússarnir minnkuðu muninn jafnt og þétt í síðari hálfleik og jöfnuðu leikinn í stöðunni 21-21. Þeir komust þó ekki yfir fyrr en í stöðunni 26-25 þegar um sjö mínútur voru til leiksloka, en það var í fyrsta skiptið í leiknum sem þeir tóku forystuna.

Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks, en það voru Þjóðverjarnir sem áttu lokaorðið og unnu að lokum eins marks sigur, 30-29.

Hvorugt lið átti möguleika á því að keppa um sæti á þessu móti og því var aðeins heiðurinn undir. Þjóðverjar enda í fjórða sæti millirðilsins með fjögur stig, einu stigi meira en Rússar sem þurfa að sætta sig við fimmta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×