Skoðun

Dönsk stjórnvöld völdu að efla þingið á tímum heimsfaraldurs

Á upphafsstigum heimsfaraldurs vantaði mikið upp á að Alþingi færi fram umræða um stöðuna og þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til. Staðan þá var mun viðkvæmari, enda var bólusetning ekki hafin og bóluefni ekki tryggð. Strax um haustið 2020 lagði Viðreisn þess vegna fram ósk um að heilbrigðisráðherra gæfi Alþingi skýrslu hálfs mánaðarlega um markmið, forsendur og sviðsmyndir sem unnið væri eftir. Við vildum með þessu auka aðkomu þings með opinni umræðu í þingsal og þar færi fram umræða um þá heildarhagsmuni sem eru á ábyrgð stjórnvalda að verja. Þáverandi heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir varð við þessari ósk Viðreisnar. Þessi gagnrýna umræða varð til þess að efla samstöðu innan þings.

Síðastliðið sumar boðaði ríkisstjórnin að stefnumótunarvinna væri hafin um viðbrögð við heimsfaraldrinum sem kynnt yrði innan 2-3 vikna. Löngu var orðið ljóst að þetta tímabundna ástand yrði langvinnt og að skref ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir, félagslega þætti og um sóttvarnir yrði að byggja á skýrri sýn um markmið og forsendur. Ekkert hefur þó spurst til þessarar stefnumótunarvinnu síðan. Hefði ríkisstjórnin lokið þeirri vinnu væru fyrirtæki sennilega í umtalsvert minni óvissu um áhrif sóttvarnaaðgerða á afkomu fólks og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Þá lægi fyrir einhver hugmyndafræði og stefna um hvaða efnahagsaðgerðir fylgja í hvert sinn sem sóttvarnaaðgerðir eru kynntar. Einhver hugmyndafræði og stefna um skólahald. Einhver sýn um skurðpunkt sóttvarna og annarra grundvallarhagsmuna samfélags.

Rík eftirlitsskylda Alþingis

Í vikunni lagði þingflokkur Viðreisnar aftur fram ósk um að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra gefi Alþingi skýrslu samdægurs þegar ríkisstjórnin tilkynnir um sóttvarnaaðgerðir. Markmiðið er að fá fram röksemdir fyrir þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin boðar í hvert sinn. Ummræða í þingsal um markmið og röksemdir skilar opnu og gagnrýnu samtali. Þó vissulega sé ástæða til bjartsýni vegna lítilla veikinda þrátt fyrir útbreidd smit þá ríkir enn óvissa um hvenær daglegt líf fólksins í landinu kemst aftur í eðlilegt horf. Aðrar þjóðir eru hins vegar að stíga skref í átt til fyrra lífs sem ríkisstjórnin vonandi lítur til og óskandi að svo verði sem fyrst.

Það er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra gefi Alþingi skýrslu þegar ríkisstjórnin boðar sóttvarnaaðgerðir sem hafa áhrif á samfélagið allt. Samhliða gefst færi á að ræða efnahagsleg og félagsleg úrræði stjórnvalda. Að tveimur árum liðnum verður að gera þá afdráttarlausu kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún kynni tímasettar efnahagsaðgerðir samhliða sóttvarnaaðgerðum. Fólk og fyrirtæki hafa þurft að bregðast við sóttvarnaaðgerðum jafnvel innan sólarhrings á meðan ríkisstjórnin hefur sjálf tekið sér vikur til að vinna efnahagsaðgerðir til að bæta tekjutap sem af hlýst. Töluverð reynsla liggur fyrir um hvaða efnahagsaðgerðir virka best og því óboðlegt að ríkisstjórnin skuli auka á óvissu og erfiðleika atvinnulífsins með þessum vinnubrögðum.

Umræða fyrir opnum tjöldum

Viðreisn hefur þannig frá upphafi kallað eftir umræðu og aukinni aðkomu þingsins. Við höfum kallað eftir plani stjórnvalda varðandi heilbrigðiskerfi, varðandi efnahagsaðgerðir og um félagslega þætti en þessi mál tengjast auðvitað sterkt. Við höfum kallað eftir rökræðu um markmið stjórnvalda og plani og kölluðum þannig eftir afléttingar plani á sínum tíma.

Frumkvæði ríkisstjórnarinnar sjálfrar til að stíga einhver skref um aðkomu þings hefur því miður vantað allan þann tíma sem heimsfaraldur hefur geisað. Það er veikleiki ríkisstjórnar að hún hafi á þessum tíma veikt þingið fremur en að virkja krafta þess. Þegar litið er til viðbragða ríkisstjórnarinnar í Danmörku má sjá að stjórnvöld þar skildu mikilvægi þess að þingið hefði aðkomu og ríkisstjórn þar leitaðist sjálf eftir því að auka aðkomu þingsins. Hér hefur heilbrigðisráðherra staðið á tröppum ráðherrabústaðarins og þulið upp hvernig fólkið í landinu á lifa lífinu næstu 2-3 vikur. Ráðherrar hafa valið að tjá sig í fjölmiðlum en ekki í þingsal og hið lýðræðislega samtal í þinginu hefur vantað. Þingið hefur ekki fengið að sinna því hlutverki sem því er ætlað að sinna. Mikilvægt er að hafa í huga að eftirlitshlutverk þingsins er ekki aðeins réttur þingsins heldur skylda þess.

Hvers vegna óskaði Viðreisn eftir skýrslu ráðherra um sóttvarnaaðgerðir?

Við aðstæður eins og nú eru á ekki að halda aftur af eftirlitshlutverki þingsins. Við óskuðum þess vegna eftir því að þegar aðgerðir eru kynntar af hálfu ríkisstjórnar þá verði heilbrigðis og fjármálaráðherra til svara inni í þingsal en jafnframt aðrir ráðherrar þegar þess er þörf, svo sem menntamálaráðherra. Ráðherrar geri grein fyrir röksemdum og forsendum fyrir sóttvarnaaðgerðum strax og þær eru kynntar. Tillaga okkar þarf ekki tímafreka þinglega meðferð eins og frumvarp það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú lagt fram. Það frumvarp mun ekki hafa nein sérstök áhrif um aðkomu þings næstu vikur og jafnvel mánuði.

Við þessari tillögu okkar er hins vegar hægt að bregðast fljótt. Ósk okkar um umræður inni í þingsal mun skila opnu og gagnrýnu samtali. Ríkisstjórnin á ekki að óttast það samtal.

Höfundur er alþingismaður Viðreisnar fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×