Tugir leikmanna hafa smitast af veirunni á EM. Danski landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jacobsen hefur beðið alla þá sem eru á 35 manna leikmannalista Dana, en komust ekki í 20 manna hópinn sem fór á mótið, að fara í PCR-próf daglega og vera tilbúnir að fylla í þau skörð sem kunna að myndast.
„Getum alla vega farið eins varlega og mögulegt er“
Í grein TV 2 segir að danski hópurinn gæti ítrustu varkárni til að koma í veg fyrir smit í hópnum og að hingað til hafi það borið árangur.
Eitt dæmi um það hve varlega menn fari hafi sést í hálfleik í leik Danmerkur og Íslands í gær. Þá hafi Niclas Kirkelökke verið að hita upp og átt skot í þverslána. Boltinn skaust upp til áhorfenda sem köstuðu honum aftur inn á völlinn en Kirkelökke ákvað þá að sparka boltanum í burtu í stað þess að snerta hann með höndunum.

„Ég veit svo sem ekki hvort það breytir einhverju en við getum alla vega farið eins varlega og mögulegt er á meðan við erum hérna. Við sjáum að fólk er að smitast svona seint á mótinu, þó að það sé í sínum búbblum, svo við getum alveg eins farið varlega,“ sagði Kirkelökke við TV 2.
Á meðan á Evrópumótinu hefur staðið hafa yfir 60 leikmenn greinst með kórónuveiruna. Samkvæmt mótsreglum kallar það á fimm daga einangrun og þurfa leikmenn svo að skila inn tveimur neikvæðum smitprófum til að mega spila að nýju.