Handbolti

Hollendingar í skýjunum: „Ég er svo fokking glaður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hollendingar fagna sigrinum á Portúgölum.
Hollendingar fagna sigrinum á Portúgölum. epa/Tamas Kovacs

Hollendingar réðu sér ekki fyrir kæti eftir að hafa komist í milliriðli á EM í handbolta í fyrsta sinn.

Holland vann Portúgal, 32-31, í lokaleik B-riðils í gær og tryggðu sér þar með sæti í milliriðli. Ljóst er að Hollendingarnir hans Erlings Richardssonar verða meðal tólf efstu liða á EM.

Kay Smits, markahæsti leikmaður EM, var í skýjunum þegar hann ræddi við TV2 í Danmörku eftir leikinn í gær.

„Hugurinn er á sveimi. Ég er svo fucking glaður. Þetta var markmiðið okkar frá byrjun og það er svo stórt að hafa náð því. Við erum svo stoltir,“ sagði Smits.

Hann segir að Hollendingar hafi alltaf haft mikla trú á eigin getu og að þeir gætu komist upp úr riðlinum.

„Fyrir mótið vissum við að við myndum fara áfram. Þetta er því við þekkjum hvern annan svo vel og vitum hvað liðið getur. Við berjumst á fullu og njótum þess svo að spila saman. Við vissum hversu góðir við værum. Allt var mögulegt í riðlinum því allir gátu unnið alla. Þetta var svo spennandi og nú erum við komnir í milliriðla sem er risastórt fyrir Holland,“ sagði Smits.

Með svo marga góða leikmenn sem enginn þekkir

Flestir leikmenn hollenska liðsins eru lítt þekktir enda spila margir þeirra í heimalandinu. 

„Við erum ekki með neinar stjörnur en við höfum hvern annan. Við berjumst saman og erum mjög góðir. Við erum með svo marga góða leikmenn sem enginn þekkir,“ sagði Smits sem hefur skorað 32 mörk á EM.

„Kannski ættu lið að horfa til leikmannanna okkar og sjá hvar þeir spila því við erum með nokkra mjög hæfileikaríka leikmenn.“

Í fyrsta leik sínum í milliriðli mætir Holland Ólympíumeisturum Frakklands. Leikurinn hefst klukkan 17:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×